146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þarfa og nauðsynlega skýrslu sem er viðbragð við Brúneggjamálinu sem komst í hámæli með umfjöllun Kastljóss í lok síðasta árs. Það mál var sannarlega mikill áfellisdómur yfir eftirliti er lýtur að neytendavernd og dýravelferðarmálum. Málið var sömuleiðis áminning um nauðsynlegt eftirlitshlutverk fjölmiðla í samfélagi okkar og brýna þörf á að styrkja fjölmiðla enn frekar í sínu rannsóknar- og aðhaldshlutverki.

Í þessari ágætu skýrslu koma fram nokkur áhugaverð atriði. Þau atriði sem mér finnst áhugaverðust eru þau sem lúta að stöðu eftirlitsaðila innan stjórnkerfisins, upplýsingaskyldu stjórnvalda en ekki síður stöðu dýravelferðar á Íslandi. Allt þetta hörmulega Brúneggjamál er líka áfellisdómur yfir stöðu neytendamála og því miður um leið yfir eftirliti með matvælaframleiðslu í samfélagi okkar.

Verkefni Matvælastofnunar eru afar yfirgripsmikil, eins og fram kemur í þessari skýrslu, og hefur stofnunin til að mynda eftirlit með sex þúsund aðilum. Á síðustu fimm árum hefur verkefnum Matvælastofnunar fjölgað mjög og örar breytingar orðið á umfangi stofnunarinnar. Því má velta alvarlega fyrir sér fjármögnun stofnunarinnar og hvort ráðherra sjái fyrir sér að hún beiti sér fyrir raunverulegri aukningu fjármuna til þessarar mikilvægu stofnunar til að hlúa enn betur að þeim verkefnum sem lúta að dýraheilbrigði og eftirliti með dýrahaldi og dýravelferð og þeim verkefnum sem snúa að neytendavernd, fræðslu og upplýsingagjöf.

Skýrslan gefur líka skýrt til kynna að stjórnvöld þurfa að stíga niður með mun meira afgerandi hætti en hingað til í þessum málaflokkum, eins og fram kemur bæði í tillögum skýrsluhöfunda um bætt innra starf Matvælastofnunar og svo í umsögn Dýraverndarsambands Íslands, sem mig langar að tæpa örstutt á hér, og eru settar fram í þeim tilgangi að gera matvælaeftirlit og eftirlit með velferð dýra skilvirkara og hagkvæmara en nú er. Í því samhengi eru raktar þar tillögur til úrbóta, til að mynda þarf samstarf við ráðuneytið að styrkja stefnumótun um matvælaeftirlit, dýraheilbrigði, dýravernd og plöntuheilbrigði þarf að skýra mun betur en nú er. Verklagsreglur Matvælastofnunar um þvingunaraðgerðir eru óskýrar. Þær þarf að skýra mun meira. Og eins og fram kemur í ábendingum Dýraverndarsambands Íslands er talið brýnt að fjölga starfsfólki á Matvælastofnun sem tryggt er að vinni beint að velferð dýra þar sem sá mannafli sem fyrir hendi er nægi ekki til að tryggja lágmarksdýravelferð í landinu. Þetta rímar sömuleiðis við þær áherslur sem starfsfólk Matvælastofnunar lagði á mikilvægu endur- og viðhaldsmenntunar.

Þessu tengt þarf líka að bæta fræðslu, bæði til framleiðenda sjálfra og almennings, og auðvitað tryggja endur- og símenntun starfsfólks.

Að auki varðandi upplýsingastefnu finnst mér mjög áhugaverðar þær tillögur sem koma fram í máli Dýraverndarsambands Íslands, að sambandið telji að frumframleiðendur eigi ekki að njóta nafnleyndar verði þeir uppvísir að illri meðferð dýra, enda um atvinnustarfsemi að ræða í þágu neytenda og almannaheilla auk illrar meðferðar á dýrum sem njóta eiga verndar samkvæmt lögum. Þetta getur varla orðið skýrara og vonandi verður þar bætt úr.

Ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að sýna í verki stuðning við dýravelferð til neytendamála og við virkara og styrkara eftirlit með matvælaframleiðslu með raunverulegum hætti. Ekki eingöngu með því að koma hlutum í farveg og undirbúning, þótt það sé gott og vel og ágætt svo langt sem það nær, heldur með raunverulegum aðgerðum. Eftirlit með matvælaframleiðslu og dýravelferð á ekki og þarf ekki að vera flókið en er nauðsynlegt ef við viljum koma Íslandi inn í nútímann í þessum málaflokkum og viljum standa við þau stóru orð og fullyrðingar að íslensk matvælaframleiðsla sé með því hreinasta sem um getur í heiminum. Þessi góða skýrsla og úttekt og tillögur í henni getur verið fyrsta skrefið í þeim efnum og hvet ég hæstv. ráðherra til dáða, til raunverulegra aðgerða.