146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kærlega fyrir skýrsluna og þeim sem hafa tekið þátt í umræðu um hana. Ég vil jafnframt fá að þakka ráðherranum sérstaklega fyrir hversu skýr hún var varðandi það að setja vinnu strax af stað í sumar um mótun matvælastefnu. Mér fannst við hæstv. ráðherra eiga mjög skemmtilega umræðu um þá möguleika sem eru í framleiðslu íslenskra matvæla. Hér kemur einmitt fram að ekki liggur fyrir heildstæð stefna stjórnvalda um þessar mikilvægu atvinnugreinar okkar. Við erum stór matvælaframleiðandi. Hér erum við að fjalla um Matvælastofnun sem er þá ekki aðeins með eftirlit með landbúnaði og dýrum á landi eins og þeir gætu haldið sem hafa ekki kynnt sér málin, heldur erum við að tala um eftirlit með allri matvælaframleiðslu í landinu og stjórnsýslunni hvað hana varðar.

Hér hefur töluvert verið rætt um að eftirlitið er unnið af tveimur aðilum, annars vegar MAST, Matvælastofnun, og hins vegar heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Það hefur leitt til ákveðinna vandkvæða sem ég held að sé einmitt mjög mikilvægt fyrir ráðherrann að skerpa betur á. Þessi skýrsla segir ekki endilega nákvæmlega til um hvernig best sé að gera þetta þannig að það hlýtur að vera hluti af þeirri vinnu sem ráðherrann fer núna í að móta sér stefnu hvað það varðar.

Þegar ég var félagsmálaráðherra í velferðarráðuneytinu var töluverð vinna unnin þar sem sneri að eftirliti og stjórnsýslu félagsþjónustu hjá sveitarfélögunum og hvernig hægt væri að tryggja að stofnun sem væri að sinna ákveðnum stjórnsýsluverkefnum hefði ekki að sama skapi eftirlit með þeim verkefnum sem hún væri að sinna, þ.e. hún væri að leiðbeina, í þessu tilviki sveitarstjórnarstiginu, og sinna ákveðnum verkefnum fyrir það en átti að sama skapi að hafa eftirlit með þessum verkefnum. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var sú að leggja til að sett yrði á fót sérstök ráðuneytisstofnun sem er lagaákvæði í stjórnarráðslögunum þannig að ráðherrann þyrfti ekki að koma með lagafrumvarp inn í þingið heldur hefði möguleika á að koma á fót ráðuneytisstofnun sem myndi heyra undir ráðuneytið ef það þætti nauðsynlegt.

Í umræðunni um fjármálaáætlunina sat ég nokkra fundi fjárlaganefndar með landshlutasamtökum sveitarfélaganna. Maður heyrði alveg frá talsmönnum þeirra að þau höfðu áhyggjur af því að ætlunin væri að færa heilbrigðiseftirlitið frá sveitarfélögunum. Þá var bent á annað verkefni sem snýr að eftirliti með skammtímaleigu til ferðamanna, að ætlunin væri að ráða einn starfsmann á höfuðborgarsvæðinu sem ætti að fylgjast með hundruðum eða jafnvel þúsundum íbúða sem væru í útleigu. Hér erum við að tala um hundruð fyrirtækja sem eru að sinna þessum verkefnum og þess vegna er mjög mikilvægt að huga að því að það sé raunverulega verið að sinna þessu eins vel og hægt er.

Tíminn hleypur hérna frá manni en ég verð að nefna að það hafa orðið svo miklar lagabreytingar á þessu sviði á undanförnum árum sem endurspeglast mjög skýrt í þessari skýrslu, að menn hafa verið á fullu að ná utan um þá löggjöf sem við höfum innleitt. Stór hluti hefur komið í gegnum Evrópusambandið og það tekur á en ég held líka að það sé mjög mikilvægt að tryggja það, við erum öll hér sammála um það, að gæði íslenskra matvæla sé með (Forseti hringir.) sem bestum hætti. Þá þarf bæði stjórnsýslan og eftirlitið að virka.