146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:51]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi er rétt að þakka fyrir þessa skýrslu þó að tilefni hennar komi kannski ekki til af góðu. Það er ljóst að stofnunin gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir land og þjóð og verður að tryggja að hún styðjist við góðan lagaramma og búi ekki síst við nægilega góð rekstrarskilyrði, m.a. til þess að sinna neytendavernd, matvælaeftirliti, dýraheilbrigði og dýravelferð. Þá er ónefnt mikilvægt hlutverk hennar sem verður vonandi enn mikilvægara eftir því sem tímar líða og það er að tryggja íslenskum matvælum aðgang að mörkuðum erlendis.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Eins og áður sagði er starfsemi MAST hluti af afar mikilvægu sam-evrópsku eftirlitsstarfi með framleiðslu og meðhöndlun matvæla, sem er grundvöllur þess að Ísland geti rækt skyldur sínar og þar með verið þátttakandi í sameiginlegum markaði EES. Það að MAST starfi á grundvelli Evrópulöggjafar og njóti trausts bæði hér á landi og erlendis er því gríðarlega mikilvægt.“

Það er því von mín að þessi skýrsla og umræður sem um hana verða séu lóð á þá vogarskál að Alþingi setji vandaða heildarlöggjöf og að í framhaldinu verði stofnuninni svo tryggt nægilegt fjármagn til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Við Íslendingar höfum nefnilega nægilega oft, finnst mér, séð að lög og reglur eru einn handleggur en eftirfylgni svo allt annar.

Stjórnendur Matvælastofnunar segja að hún sé sterk faglega, að stjórnendur hafi mikla þekkingu en þá skorti hins vegar mannafla til að hægt sé að sinna öllum skyldum stofnunarinnar. Verkefni hennar eru að aukast og bara á síðustu árum hafa t.d. bæst við verkefni á sviði fiskeldis án þess að fylgt hafi fjármagn til að sinna þeim. Fiskeldið er í gríðarlegum vexti. Það kemur líka fram hjá forstöðumönnum stofnunarinnar að í rauninni er erfitt að hafa eftirfylgni með þeirri atvinnugrein vegna þess að ákvarðanir og úrskurðir stofnunar séu kærðar í sífellu þannig að þetta er flókið mál og það kostar peninga.

Skýrsluhöfundar fjalla líka um þetta nokkuð vel og segja fulla ástæðu til að skoða miklu betur hvort fjölgun starfsmanna úr 75 í 90 hafi haldist fyllilega í hendur við sívaxandi hlutverk sem henni er falið, m.a. þegar kemur að því að sinna að fullu lögbundnum verkefnum. Eins og áður sagði vinnur starfsfólkið undir miklu álagi og starfsemin virðist ekki heldur vera nógu samhæfð. Við getum einfaldlega ekki haldið svona áfram. Í dag eru nefnilega neytendur bæði innan lands og utan orðnir mjög kröfuharðir. Hvort sem þeir eru að velta fyrir sér dýravelferð eða uppgefnum framleiðsluferlum vöru út frá náttúruverndarsjónarmiðum eða af öðrum ástæðum er lágmarkskrafa að þeir geti gengið út frá því að varan sé sú sem hún er sögð vera, ekki falsvara sem stenst ekki væntingar og er ofan í kaupið kannski jafnvel dýrari fyrir vikið af því að hún er auglýst með tilteknum hætti.

Afleiðingar þess að svíkja neytendur og brjóta gegn dýrum eða rýra með öðrum hætti trúverðugleika íslenskrar matvælaframleiðslu þurfa að vera þannig að framleiðendum sé bæði ljós afleiðing þess að gera það og að þeir finni fyrir því.

Í umræðunni áðan sagði hv. þm. Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, að MAST væri lykill okkar að mörkuðum. Ég held að margt sé til í þeim orðum. Matvælaframleiðsla er okkur afar mikilvæg og í henni felast gríðarleg tækifæri þannig að við megum ekki láta undir höfuð (Forseti hringir.) leggjast að tryggja stofnuninni ákjósanleg starfsskilyrði.