146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög góða og uppbyggilega umræðu en verð þó að segja vegna ákveðinna ummæla að ég fæ ekkert út úr því sem tiltölulega nýr ráðherra í þessum málaflokki að leita að sökudólgum í fortíðinni hjá forverum mínum í starfi. Miklu frekar skulum við horfa til framtíðar með skýrslunni og hvað við erum að gera núna í ráðuneytinu til að byggja upp það sem m.a. hv. þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum.

Matvælastefnan verður sett af stað á árinu. Einföldun eða samræming á eftirliti er gríðarlega mikilvæg. Sveitarfélögin geta ekki kyngt því að verið sé að taka frá þeim eftirlitið en það snýst ekki um það, þetta snýst um að byggja hér upp öflugt eftirlit, öfluga stofnun sem tryggir ákveðið öryggi fyrir neytendur, tryggir okkur aðgang að mörkuðum og að við séum einfaldlega trúverðug.

Nokkrir hafa nefnt hér að skoðunaraðilar og fagaðilar verði að vera óháðir. Ég er algjörlega sammála því. Þetta snertir trúverðugleika stofnunarinnar þannig að það er þýðingarmikið að þau skilaboð komist áleiðis.

Ég vil líka draga fram að í ráðuneytinu er þriggja manna verkefnisstjórn sem starfar í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk MAST einmitt til að tryggja að ábendingunum verði fylgt eftir í skýrslunni. Varðandi heildarlöggjöf um starfsemi MAST mun sami hópur vinna að frumvarpi sem við náum vonandi að ræða hér strax í haust.

Ýmsir tala eftirlit niður en ég tel mikilvægt að menn átti sig á því að eftirlit er til að hjálpa. Það er til að hjálpa neytendum og skapa ákveðið öryggi á markaði til að tryggja þann aðgang að erlendum mörkuðum sem okkur hefur orðið tíðrætt um en þá þarf kerfið að vera þannig uppbyggt að það sé ekki flókið, heldur sé skilvirkt og einfalt og að það sé samræmi á milli stjórnsýsluaðila. Það er verið að kalla eftir skýrri umgjörð. Við ætlum að tryggja hana. Ég fer sjálf betur nestuð upp í ráðuneyti (Forseti hringir.) eftir þessa uppbyggilegu og góðu umræðu.