146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þá vil ég snúa mér að seinni hluta 40. gr. er varðar rit sem ráðherra er gert að gefa út samkvæmt lögum þessum. Þar rek ég augun í 1. málslið sömu greinar — mér finnst tölusetningin hérna reyndar svolítið furðuleg — þar sem stendur að ráðherra skuli gefa út handbók um framkvæmd notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, m.a. um hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila, samanber 11. gr. þessa frumvarps, ásamt nokkrum öðrum ritum eins og leiðbeiningum um framkvæmd sértækrar frístundaþjónustu, framkvæmd þjónustu við stuðningsfjölskyldur og framkvæmd styrkveitinga vegna félagslegrar hæfingar, endurhæfingar, verkfæra- og tækjakaupa og greiðslu námskostnaðar. Hér kemur ekki fram það sem má finna víðs vegar í þessu frumvarpi, að haft skuli samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks eða notendur þessarar þjónustu eða eitthvað slíkt. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort standi til, sérstaklega við gerð þessarar handbókar, (Forseti hringir.) að hafa samráð við þá sem þessa þjónustu þiggja, hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur sjálfa.