146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, frá félags- og jafnréttismálaráðherra. Ég vil fagna framlagningu þessa frumvarps og þakka ráðherranum kærlega fyrir það. Hann er búinn að vera stuttan tíma í ráðuneytinu en hefur sýnt og sannað að hjarta hans slær með þeim málaflokkum sem hann vinnur fyrir. Við sem höfum áður fylgt þessum málum eftir fögnum því mjög að vera komin á þennan stað.

Frumvarpið hefur í för með sér mikla réttarbót fyrir fatlaða einstaklinga til sjálfstæðs lífs. Réttindi þess til þjónustu verða skýrari og það er kveðið á um ný þjónustuform í þessum lögum. Lagaleg réttindi eru færð til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi og skyldur fatlaðra einstaklinga og eldri borgara. Þá er mikilvægt að lagaramminn er skref í þá átt að innleiða nýja hugmyndafræði, eins og kemur fram í frumvarpinu, í tengslum við alla þjónustu sem fatlaðir einstaklingar njóta.

Þá er gríðarlega mikilvægt atriði í frumvarpinu allt samstarf við sveitarfélögin. Ég er sannfærður um að við eigum eftir að ná góðri niðurstöðu í því samstarfi þegar frumvarpið hefur farið í gegnum nefnd og umsagnir komið fram. SIS-matið verður áfram lagt til grundvallar að miðlægum framlögum til sveitarfélaga úr jöfnunarsjóði sem stendur undir stærstum hluta þjónustunnar vegna þessa frumvarps. Það kemur einnig fram í frumvarpinu að í fjármálaáætlun áranna 2018–2022 hækki framlögin, sem eru á þessu ári 324 milljónir, í 1.295 milljónir árið 2022. Hér hefur líka komið fram um fjölgun þeirra samninga sem gerðir verða á næstu árum að þeir verða 80 á næsta ári og verða 175 árið 2022, eins og fram hefur komið.

Það hefur verið gagnrýnt að þetta taki ekki gildi í einu vetfangi. Ég vil taka fram að ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur öll að við stígum öll þau skref í þessa átt, að bæta kjör og hagsmuni fatlaðra einstaklinga, ákveðið og hratt, en að við gætum að hverju skrefi sem við tökum samt sem áður. Það er ýmislegt að varast í þeim efnum. Við þekkjum það og höfum reynslu af því frá hinum norrænu þjóðunum. Fréttir eru af því að þar eigi NPA-þjónustan sér ýmsar dökkar hliðar líka. Við skulum reyna að forðast það hér að lenda í því. Sveitarfélögin hafa auðvitað stjórnað þessum málaflokki. Þau hafa vandað sig við það, með stuðningi frá ríkinu. Ég tel best að við höldum áfram að taka þau skref saman, ákveðið en ekki of hratt. Ég held að það gagnist ekki endilega öllum.

Ég vil líka fagna því sem fram kemur í 22. gr. um atvinnumál þar sem á að ýta undir atvinnuþátttöku fatlaðra einstaklinga, sem er gríðarlega mikilvægt mál og við erum öll sérstakir áhugamenn um, alla vega ég. Það kemur fram í síðustu málsgrein þeirrar greinar að fatlað fólk skuli hafa forgang að störfum hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þess er jöfn eða meiri en annarra sem sækja um starfið. Mér finnst afar mikilvægt að þessi grein sé orðuð á þennan hátt. Eitt af því sem er gríðarlega mikilvægt í samfélagi okkar, og ekki síst núna þegar við sjáum fram á að hér vanti töluvert mikið af fólki á vinnumarkaðinn, er að við og atvinnulífið gerum fólki sem hefur kannski ekki alveg fulla starfsgetu kleift að taka þátt í atvinnulífinu af eins miklum krafti og getu og það vill. Þess vegna þarf atvinnulífið að vera opnara fyrir því að taka fólk í hlutastörf. Á það hefur skort. Þeir einstaklingar sem við erum að fjalla um núna þurfa meira á því að halda en við hin sem teljum okkur hafa fulla starfsorku.

Ég vil brýna okkur og samfélagið til að taka vel á móti þessu fólki inn í atvinnulífið því að það getur og vill láta gott af sér leiða þar.

Ég geri ráð fyrir að að umræðum loknum fari frumvarpið til velferðarnefndar. Ég held að mikilvægt sé að þar verði þessi mál skoðuð mjög vel. Þar er gott fólk og ég hygg að í enda dagsins verði töluverður samhljómur í þinginu um að afgreiða þessi mál. Ég treysti því að við getum jafnvel klárað það fyrir vorið. Ég veit ekki alveg hverjar væntingarnar eru með það. En við þurfum að fara að ljúka vinnunni og skapa umgjörð fyrir þessa einstaklinga sem við höfum unnið að svo lengi. Ráðherrann leggur þetta mál fram og ég vil enn og aftur ítreka þakklæti mitt til hans fyrir að það sé fram komið. Við munum örugglega ræða það betur á næstu dögum og vikum og komast að niðurstöðu sem er farsælust fyrir einstaklingana sem um er að ræða og samfélagið allt og okkur sjálf.