146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[17:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og aðrir hér í dag, fagna því stóra og mikla mannréttindamáli sem við ræðum. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Farið hefur verið ágætlega yfir þetta góða mál hér. Mér finnst ánægjulegt að sjá hvað mikið samráð hefur verið haft við vinnu þessa verkefnis, nú er ég kannski sérstaklega að hugsa um NPA-hluta þessa frumvarps. Það er hluti af stjórnarsáttmálanum að innleiða það ákvæði í samstarfi við sveitarfélögin. Eins og hv. þingmenn hafa komið inn á er það ekki nýtt af nálinni og höfum við verið að vinna í töluverðan tíma að því og einnig hafa nefndir verið að störfum hvað það varðar.

Hérna er verið að tala um einstaklingsmiðaða þjónustu, sem er auðvitað áskorun þegar kemur að stjórnsýslunni en er engu að síður leið sem við eigum að fara að mínu mati, bæði í þessu svo og annarri þjónustu, til að mynda við aldraða og inn í heilbrigðiskerfinu.

Mig langar þó aðeins að nefna frístundaþjónustu við fatlaða nemendur. Þarna er talað um að sú þjónusta verði lögbundið verkefni sveitarfélaganna, sem er gott, þetta er mikilvægt verkefni og sveitarfélögin hafa almennt sinnt því. Þarna tel ég þó þörf á töluverðu samstarfi á milli sveitarfélaganna. Það er eitt að vera með skóla án aðgreiningar og geta kennt börnum með mismunandi þarfir og fara yfir námsefni, en þegar kemur að félagslega þættinum verða verkefnin enn þá meira krefjandi. Ég held að sé nauðsynlegt að sveitarfélögin sameinist eitthvað í þeirri vinnu.

Mig langaði að beina einni spurningu til ráðherrans því að hér er svolítið farið yfir reynsluna annars staðar á Norðurlöndum. Mig minnir að talað sé sérstaklega um Svíþjóð og úttekt sem gerð hafi verið þar þar sem niðurstaðan hafi verið mjög jákvæð. Ég hef aftur á móti heyrt, og það kemur m.a. í umsögn Reykjavíkurborgar, reyndar um fjármálaáætlunina, að annars staðar á Norðurlöndum sé verið að falla frá þessu fyrirkomulagi. Ég hef svo sem ekki séð það neins staðar annars staðar nema í þessari umsögn og oft heyrt því fleygt í þessari umræðu. Ef hæstv. ráðherra þekkir eitthvað til þessa væri áhugavert að heyra hann tala um það.

Ég verð að viðurkenna að eins mikið og ég fagna þessu frumvarpi og tel það mikilvægt mannréttindamál þá staldra ég við fyrirvara sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerir varðandi kostnaðarliðinn. Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að sú aðferð verði áfram lögð til grundvallar og að miðlæg framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga standi undir stærstum hluta þjónustu ákvæðum frumvarpsins.“

Ég stóð í þeirri meiningu, ásamt held ég flestum sem komið hafa að sveitarstjórnarmálum, að við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna myndi ríkið greiða allan þann kostnað sem hlytist af þeirri þjónustu. Ef ráðherra gæti farið lítillega yfir það í lokaræðu sinni hér á eftir. Svo brýni ég hv. velferðarnefnd til að fara sérstaklega yfir þennan þátt í vinnu sinni. Að öðru leyti þakka ég þetta góða frumvarp.