146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[17:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hvet þá líka til þess að nefndin skoði þetta ákvæði sérstaklega. Ég þekki til að mynda til þess að á hjúkrunarheimili sem rekið er í Mosfellsbæ eru ungir einstaklingar sem þurfa að mörgu leyti öðruvísi þjónustu en veitt er á hefðbundnum öldrunarstofnunum. Þarna hefur verið ákveðinn ágreiningur á milli ríkis og sveitarfélaga um það hvort greiða eigi meira með þeim einstaklingum eða annað. Það er málefni sem er ekki á sviði hæstv. ráðherra heldur hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, en það er spurning hvort þessi grein ætti kannski jafnframt að taka á því þannig að enginn ágreiningur sé uppi um það hver skylda sveitarfélaga er í þeim efnum. Sjálf teldi ég æskilegt að yngra fólk inni á hjúkrunarheimilum fengi þessa aðstoð.

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra út í 29. gr. um akstursþjónustu. Það er einfaldlega vegna þess að ég náði ekki að fletta því upp áðan. Mig langar að vita: Er einhver breyting á orðalaginu sem slíku? Þarna er talað um að fatlað fólk eigi kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna leiða þegar það geti ekki nýtt sér almenningsfarartæki. Ég minni á að akstursþjónusta fatlaðs fólks, alla vega hér á höfuðborgarsvæðinu, er í raun almenningssamgöngur þó að þær séu sérhæfðar fyrir hóp fólks sem ekki getur nýtt sér hina hefðbundnu gulu vagna. Ég velti fyrir mér hvort það sé nokkuð vilji löggjafans að breyta því fyrirkomulagi með einhverjum hætti, hvort við séum ekki enn að ræða um svipað form og í boði er í dag.