146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[17:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að um þetta mál gildi það sama og um málið sem við ræddum hér á undan, þ.e. að margt í því sé jákvætt og þoki hlutum svo sannarlega fram á við varðandi málefni fatlaðs fólks. Ég tel engu að síður mjög mikilvægt að hv. velferðarnefnd skoði þessi mál mjög vel í samhengi svo að enginn falli milli skips og bryggju, hvort hópar sem séu ekki metnir með miklar stuðningsþarfir uppfylli ekki heldur skilyrði laganna hinum megin. Ég veit að það á ekki að vera svoleiðis, en þetta þarf að skoða. Ég hlakka eins til að sjá umsagnir varðandi það hvernig okkur gengur við að ná anda samnings Sameinuðu þjóðanna.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem sagt er um mat á kostnaðaráhrifum með frumvarpinu. Í niðurlagi greinargerðarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Varðandi mat á kostnaðaráhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 129 gr. sveitarstjórnarlaga, hefur verið haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við kostnaðarmat ráðuneytisins. Sambandið vill þó halda því til haga að í samráðsferlinu voru aðilar sammála um að þar sem útgjaldaþróun stuðningsþjónustu er óviss væri rétt að setja á laggirnar samráðsnefnd til þess að fylgjast með þróun kostnaðar við þjónustuna næstu þrjú til fimm ár.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Í hvaða farvegi er þetta? Er þessi samráðsnefnd tilbúin? Eða á eftir (Forseti hringir.) að skipa í hana? Það skiptir máli í þessum málum eins og öðrum að samtal sé alla vega í gangi um kostnaðinn.