146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

439. mál
[18:01]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég tek undir það að það er ákaflega mikilvægt, þegar horft er til þessa eðlismunar á milli löggjafarinnar um málefni fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir og aftur hinnar almennu löggjafar um félagsþjónustuna, að þar skapist ekki grátt svæði á milli, að það sé alveg skýrt að svo eigi ekki að vera. Það er mjög mikilvægt að gæta að því í meðförum málsins hér í þinginu að slík óvissa sé ekki fyrir hendi. Það á að vera mjög skýr aðgreining þarna á milli og ekki er ástæða til að ætla annað en svo sé.

Varðandi kostnaðarmatið og samstarfið við sveitarfélögin verður unnið með þeim hætti sem þarna er lýst, þ.e. kostnaðarþróun hvað þetta varðar verður í mjög nánu samráði milli ríkis og sveitarfélaga. Það er afskaplega erfitt að áætla þetta. Hér er verið að leggja upp í mjög viðamiklar breytingar á því hvernig þjónusta er veitt. Þegar horft er til leiðarstefsins, þ.e. hins skýlausa réttar til sjálfstæðs lífs, eigum við eftir að fara í gegnum mikið lærdómsferli og átta okkur á því hvernig best sé að leysa úr þeim álitaefnum sem munu koma upp í ferlinu. Þar munu vafalítið fjölmörg atriði hvað kostnað varðar koma upp. Það er mjög brýnt að þar sé gott samstarf og þessi samstarfsnefnd verður sett á laggirnar milli ríkis og sveitarfélaga til að fylgja því eftir.