146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Hér er mælt fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ásamt breytingartillögu. Frumvarpið felur í sér að fimm evrópskar reglugerðir varðandi Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina, Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina og Evrópska kerfisáhætturáðið verða færðar í lög hérlendis, þó með þeirri aðlögun að Eftirlitsstofnun EFTA fari að meginstefnu til með valdheimildir sem tilheyra fyrrgreindum eftirlitsstofnunum innan Evrópusambandsins.

Nefndin fékk á fund sinn gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Auk umsagna frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum bárust umsagnir frá Kauphöll Íslands, Persónuvernd og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Meiri hlutinn er sammála um að leggja til breytingar á fjórum greinum frumvarpsins, í fyrsta lagi á 3. gr.: Að mati meiri hluta nefndarinnar er nægjanlegt að reglugerðirnar með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvarðanirnar í heild sinni. Meiri hlutinn leggur því til að 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar.

Í öðru lagi á 5. gr.: Til þess að taka af tvímæli verði Seðlabanka Íslands bætt í hóp þeirra sem er heimilt að veita evrópskum eftirlitsstofnunum upplýsingar og gögn í 1. mgr. greinarinnar.

Í þriðja lagi á 6. gr.: 2. mgr. er umorðuð og kveðið skýrt á um að það eru markaðsaðilar sem fjármálaráðuneytið getur krafið um sömu upplýsingar og 1. mgr. kveður á um.

Í fjórða og síðasta lagi á 10. gr. sem fjallar um breytingar á öðrum lögum. Þar bætist við ákvæði um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, nánar tiltekið að við 35. gr. þeirra bætist ný málsgrein sem kveður skýrt á um að Seðlabanka Íslands sé heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja EES-samningsins, stofnunum EFTA og hinum evrópsku eftirlitsstofnunum á sviði fjármálastarfsemi upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu.

Með þessum breytingum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði að lögum.

Rétt er að geta þess að nefndin ræddi talsvert um framsal valdheimilda á afmörkuðu sviði til Eftirlitsstofnunar EFTA. Meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið sem umsamin aðlögun felur í sér rúmist innan stjórnskipunarlegra heimilda. Hins vegar dregur málið fram að við innleiðingu gerða og reglugerða er stundum þrætt afar mjótt einstigi þess mögulega og æskilegt væri að stjórnskipun veitti skýrari heimildir að þessu leyti.

Undir álit meiri hlutans rita þau Óli Björn Kárason formaður, Jón Steindór Valdimarsson framsögumaður, Albert Guðmundsson, Bessí Jóhannsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason en Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

(Forseti (JÞÓ): Framsögumanni urðu á þau mistök að mæla fyrir röngu nefndaráliti og því er aftur er tekið fyrir sjöunda dagskrármálið, fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.)

Herra forseti. Ég bið þingheim afsökunar á þessum leiðu mistökum, en nú skal ég mæla fyrir réttu nefndaráliti.

Herra forseti. Hér er mælt fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ásamt breytingartillögu á þskj. 514. Frumvarpið felur í sér að mælt verði fyrir um skyldu fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitsins til að hafa ferla til að taka við tilkynningum um brot á fjármálamarkaði. Frumvarpið byggist á 71. gr. tilskipunar 2013/36/ESB sem ráðgert er að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Nefndin fékk á fund sinn gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Persónuvernd. Auk umsagna frá Fjármálaeftirlitinu og Persónuvernd bárust umsagnir frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.

Meiri hlutinn er sammála um að leggja til samkynja breytingar á tveimur greinum frumvarpsins, 1. gr. og 3. gr. Það er gert í ljósi skýrra ábendinga frá Persónuvernd sem benti á að ýmsir annmarkar fylgdu nafnlausum tilkynningum. Nafnleysi kæmi ekki í veg fyrir að aðrir gætu sér til um hver hefði tilkynnt brot. Erfiðara gæti verið að rannsaka mál þar sem ekki væri hægt að ráðfæra sig við þann sem tilkynnti. Persónuverndarsjónarmið tækju jafnt til þess sem tilkynnir og þess sem tilkynning beinist að. Þá kom fram að ábendingar Persónuverndar styddust við viðhorf og tillögur evrópskra persónuverndarstofnana í þessum efnum.

Meiri hluti nefndarinnar telur heppilegra að tilkynningar séu sendar undir nafni en að á móti sé gætt leyndar um þann sem tilkynningu sendir, líkt og gert er ráð fyrir í 1. mgr. b-liðar 1. gr. og 2. málslið 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar telur því rétt að fella brott vísanir síðari málsliðar 1. mgr. a-liðar 1. gr. og 1. málslið 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins til nafnlausra tilkynninga. Brottfall þeirra útilokar þó ekki að fjármálafyrirtæki eða Fjármálaeftirlitið taki við nafnlausum tilkynningum en með þeim hætti er skýrara að ekki sé sérstaklega hvatt til þeirra. Nefndin fékk Fjármálaeftirlitið á sinn fund til að bera undir það breytingartillöguna og eftirlitið gerði ekki athugasemd við hana.

Með þessum breytingum leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði að lögum. Undir álit meiri hlutans rita þau Óli Björn Kárason formaður, Jón Steindór Valdimarsson framsögumaður, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara, Lilja Alfreðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason. Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.