146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[18:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég er með við nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Eins og fram hefur komið hjá framsögumönnum nefndarálita snýst þetta frumvarp — án þess að ég ætli að tala fyrir aðra nefndarmenn, ég tel að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi verið mjög sammála meginmarkmiðum frumvarpsins — um að fjármálafyrirtæki hafi ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna innan fjármálafyrirtækja um möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldstilmælum sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækisins. Að tryggt sé að einstaklingur sem taki við tilkynningum búi við sjálfstæði í störfum og að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem eru honum nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum. Að vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skuli vera í samræmi við lög um persónuvernd og að starfsmenn sem tilkynni um slík brot njóti verndar, þ.e. að þeir sem taki við tilkynningum skuli bundnir þagnarskyldu og starfsmaður njóti verndar sem hefur í góðri trú tilkynnt um brot.

Sá ágreiningur sem birtist í þessum nefndarálitum snýst um hvort rétt sé að hvetja til þess beinlínis í lögum að unnt sé að senda inn nafnlausar ábendingar. Í stjórnmálum eru ekki alltaf einföld svör. Það er nú gjarnan þannig að spurningarnar sem við erum að kljást við veita ekki alltaf einföld svör. Að mörgu leyti er ég sammála þeim sjónarmiðum sem birtast í nefndaráliti minni hlutans, þ.e. hv. þm. Smára McCarthys, hvað varðar það að mikil áhætta sé fólgin í því fyrir þann sem tilkynnir um brot og geti falið í sér mikla áhættu gagnvart starfsöryggi hans. Bent er á að útilokað sé að girða með öllu fyrir að nöfn viðkomandi aðila leki út og þeir sæti hefndaraðgerðum eða öðru misrétti. Ég er algerlega sammála þessum sjónarmiðum.

En ég er líka sammála því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, og ég held að það sé mikilvægt upp á lögskýringar á þessum lögum í framtíðinni, ég vænti þess að frumvarpið verði að lögum, að það liggur skýrt fyrir í nefndaráliti meiri hlutans að slíkar tilkynningar eru ekki teknar fyrir. Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga, bæði í nefndaráliti meiri hlutans og í þeim ræðum sem hér eru fluttar, að það er skilningur löggjafans að ekki sé bannað að hafa leiðir fyrir nafnlausar tilkynningar. Hins vegar voru færð fram ákveðin rök af hálfu sérstaklega Persónuverndar um að það skipti líka máli að gera almennt þá kröfu að viðmiðið væri fremur að upplýsingar væru sendar inn undir nafni en að ekki væri bannað að taka við nafnlausum ábendingum. Ég lít svo á að það sé skilningurinn á frumvarpinu, verði það að lögum með þessum breytingartillögum meiri hlutans, þ.e. að almenna viðmiðið verði að fólk sendi inn slíkar ábendingar undir nafni, en að það sé alls ekki bannað á nokkurn hátt eða óheimilt að taka við ábendingum eða senda inn undir nafnleysi. Og það er mikilvægt að það sé ekki bannað. Mér finnst mjög mikilvægt að sá lögskilningur komi hér fram.

Mér fannst mikilvægt, í ljósi þess að ég var því miður fjarverandi á þeim fundi þar sem Persónuvernd mætti og fjallaði um málið, að fá álit Fjármálaeftirlitsins á þessari breytingartillögu. Eins og komið hefur fram gerði Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við hana. En auðvitað er ekki einfalt svar við þessum spurningum. Við sjáum að nágrannaríkin hafa farið ólíkar leiðir. Danmörk og Þýskaland eru nefnd í nefndaráliti hv. þm. Smára McCarthys. Noregur og Svíþjóð hafa farið þá leið sem meiri hlutinn leggur hér til. Niðurstaða mín var að sitja hjá við þessa breytingartillögu. Að öðru leyti styð ég heils hugar markmið frumvarpsins og mun greiða þeim atkvæði mitt. En þetta eru útskýringar á þeim fyrirvara sem ég set hér við nefndarálit meiri hlutans.