146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég komst að því að við gætum ekki tekið sjálfstæða ákvörðun á Alþingi Íslendinga um að innleiða ákveðnar takmarkanir á eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum vegna þess að við værum búin að afsala okkur þeim rétti í EES-samningi. Það er áfall og hlýtur að vekja okkur til umhugsunar. Þetta litla dæmi, sem er ekki það stærsta, getur þegar fram líða stundir skipt okkur máli þegar við förum að taka til þess er varðar framtíðarskipulag á fjármálamarkaði, koma í veg fyrir krosseignarhald og að hér verði stórir aðilar nær einráðir á fjármálamarkaði, eins og við höfum rætt í efnahags- og viðskiptanefnd og erum að þoka okkur inn í slíka umræðu. Þetta voru vonbrigði, ég skal viðurkenna það. Hafði ég uppi stór orð, held ég, hér í ræðustól um nauðsyn þess að gera það og kemur síðan í ljós að það var ekki meira efni í þeirri ræðu en það.

Við erum núna, sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd, að fjalla um mjög flókin mál, mjög flóknar reglugerðir um fjármálamarkaðinn. Við erum líka að fjalla um tekjuhlið fjármálaáætlunar o.s.frv. Ég velti fyrir mér: Getum við verið sammála um það, við hv. þingmaður, að kominn sé tími til að löggjafinn, fjárveitingavaldið, tryggi að hægt sé að byggja upp sérþekkingu á nefndasviði Alþingis þannig að nefndir Alþingis séu í stakk búnar (Forseti hringir.) til þess að afla sér þekkingar innan húss, ráðgjafar, en vera ekki stöðugt undir hælnum á fagráðuneytum, fjármálaráðuneytum og sérhagsmunaaðilum?