146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:13]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þarna erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Það er auðvitað ekki í lagi fyrir Alþingi að vera algerlega háð framkvæmdarvaldinu um sérfræðiþekkingu á til að mynda hinu evrópska fjármálaregluverki. Það er risastórt mál þar sem þingmenn eru settir í þá stöðu að þurfa að leita eftir tengslum sínum erlendis eftir þeirri pólitísku umræðu sem hefur átt sér stað, því að við erum jú stjórnmálamenn en ekki embættismenn og þótt allir starfsmenn Alþingis, ég tek það ég fram, geri sitt besta þurfum við hreinlega meiri mannskap í þessa sérfræðiþekkingu.

Ég átti samtal við hæstv. forsætisráðherra tengt þessu í kringum fjármálaáætlunina þar sem ég lýsti áhyggjum mínum af Alþingi, því að fyrir utan þá nýbyggingu sem ætlað er að rísi sjáum við ekki mikla aukningu á sérfræðikostnaði Alþingis, sem er einmitt það sem ég tel að skorti verulega á hér innan húss, ekki síst í tengslum við ný lög um opinber fjármál, innleiðingu þeirra og hvernig við eigum að vinna að þeim. Því var svo sem ágætlega tekið í þeirri umræðu. Ég hvet hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar áfram og mun standa eindregið með honum í því að sækja fram í að nefndir, t.d. efnahags- og viðskiptanefnd, fái aukinn aðgang að sérfræðingum. Það er auðvitað óþægileg staða fyrir hv. þingmenn að taka afstöðu til mála eingöngu út frá framkvæmdarvaldinu sem lýtur ákveðinni pólitískri stjórn meiri hluta og síðan hugsanlega frá þeim hagsmunasamtökum sem eru nægjanlega burðug til að hafa byggt upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði.

Að sjálfsögðu tel ég að í þessu flókna lagaumhverfi, og ég man vel eftir því þegar hv. þingmaður talaði fyrir dreifðu eignarhaldi og tók undir með honum um að það væri ansi góð hugmynd, eigum við hv. þingmenn að hafa meiri tök á að geta sett okkur inn í ekki einungis tæknilegar hliðar heldur líka hinar pólitísku hliðar þeirra reglugerða sem við fáumst við og hafa svo stór áhrif á líf okkar.