146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:54]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Eins og hér hefur komið fram þá stöndum við hv. þm. Katrín Jakobsdóttir að minnihlutaáliti frá efnahags- og viðskiptanefnd sem hv. þingmaður fór vel yfir, sérstaklega þau stjórnskipulegu álitamál sem eru fyrir hendi og koma glöggt fram í þessu máli þar sem ljóst er að Eftirlitsstofnun EFTA eru hér framseldar umtalsverðar valdheimildir á afmörkuðu sviði.

Ég er sammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns og annarra þingmanna um að dýpri umræður þurfi að taka en ekki á hlaupum í andsvörum. En að því sögðu ætla ég að vera mjög samkvæmt sjálfri mér, eða hitt þó heldur. Þar sem ég er hlynnt dýpri umræðu en ekki á hlaupum ætla ég mér ekki að fara á dýptina í vangaveltum eða rökræðum um það, heldur beina sjónum að og vekja vonandi aðeins meiri athygli á þeim eftirlitsverkfærum sem við höfum nú þegar hér á landi og komið er inn á í frumvarpinu.

Eins og segir í áliti minni hlutans sem við stöndum að þarf heldur betur að styrkja þau innlendu eftirlitsverkfæri sem við höfum nú þegar, samhliða því að innleiða reglugerðir um eftirlitið gegnum EES-samninginn. Það er gott og vel, en má ekki verða til þess að við gleymum að líta í eigin barm og styrkja okkar eigin varnargarða gagnvart áföllum og ekki síður að styrkja eigið sjálfstraust varðandi þá veikleika sem finna má í okkar eigin kerfi. Á þessum merku tímum þegar við stöndum frammi fyrir einni mestu endurskipulagningu á íslensku banka- og fjármálakerfi sem við höfum ráðist í nú þegar er viðbúið að stærsti hluti fjármálakerfisins sem er í eigu ríkisins verði losaður úr fangi ríkisins. Þá þarf heldur betur að vanda til verka.

Í ræðu sinni 2. mars sl. sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann mælti fyrir málinu, með leyfi forseta:

„Ég vil að lokum árétta að ég tel mjög mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga til að styrkja eftirlit á fjármálamarkaði hér á landi og til að tryggja áfram farsæla aðild Íslands að EES-samningnum.“

Hæstv. ráðherra sagði enn fremur:

„Með lögfestingu þessa frumvarps fær Ísland aðgengi að hinu evrópska eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.“

Við höfum nú þegar aðgengi að hinu evrópska eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Þó svo að við ræðum þetta frumvarp erum við nú þegar aðilar að því kerfi.

Varðandi okkar eigið eftirlit og regluverk langar mig að benda á að ítrekað hefur komið fram í landsskýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnrýni á hversu slappt reglugerðarverkið er og ekki síður eftirlitsverkið sem við búum við þegar kemur að fjármálamarkaðnum hér á landi. Hversu gott sem Fjármálaeftirlitið er þá þarf að styrkja það og valdheimildir þess, ekki síður en að innleiða eftirlitsregluverk fjármálakerfisins á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ef ég aðeins tæpi á þeirri gagnrýni sem AGS hefur komið fram í landsskýrslum sínum. Nú síðast í landsskýrslu AGS frá því í júní í fyrra er gagnrýnin sem þar kemur fram nokkuð óvenjuleg vegna þess hversu harðorð og umbúðalaus hún er. Reyndar segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hreinlega að Fjármálaeftirlitið vanti tennur og sjálfstæði og sé undir hælnum, ef ekki þumalputtanum eða hvoru tveggja, á fjármálaráðherra og þurfi að styrkja það með öllum ráðum og sjálfstæði þess. Það hafi komið fram árið 2014 þegar við tókum upp Basel-staðalinn og að í því ferli hafi komið skýrt fram hversu ófullnægjandi reglugerðarvald Fjármálaeftirlitið hefur og hversu háð það er fjármálaráðuneytinu varðandi reglugerðarsetningu og lagasetningu. Í þeirri gagnrýni sem fram kemur í landsskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeirri nýjustu, er einnig tæpt á þeim álitamálum sem upp hafa komið á milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og þess gráa svæðis sem ekki hefur verið skýrt á milli þess hver gerir hvað og hvar ábyrgðin liggur í því eftirliti sem nauðsynlegt er að hafa í banka- og fjármálakerfinu.

Ég held að það sé fullkomlega nauðsynlegt að við treystum ekki eingöngu á innleiðingar á regluverki fjármálakerfisins á Evrópska efnahagssvæðinu, sem voru góðu heilli settar og ætlað að taka á þeim veikleikum sem afhjúpuðust í fjármálahruninu þar. Við verðum að vinna okkar eigin heimavinnu samhliða þessum innleiðingum.

Þess vegna þurfum við að fara í dýpri umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd um hlutverk Fjármálaeftirlitsins og framtíðarhlutverk þess í okkar eigin regluverki og umgjörð hér á landi. Hinn frægi hagfræðingur, John Kay, skrifaði um eftirlitshlutverk og eftirlit með fjármálamörkuðum. Það er það ekki eingöngu nóg að setja reglugerð og eftirlit, heldur þarf að rýna aðeins meira á dýptina. Rætur vanstillingar fjármálakerfisins, sem við upplifðum svo harkalega á eigin skinni í hruninu 2008 og önnur lönd sömuleiðis í tengslum við efnahagshrunið bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, eru menningarlegs eðlis. Þær er að finna í einhvers konar gildum sem við höfum haldið á lofti í menningu okkar um það hvers konar eftirlitskerfi við viljum halda í heiðri í samfélaginu.

Þetta finnst mörgum kannski allt of djúp umræða og að ekki þurfi að fara í heimspekilegar vangaveltur þegar við förum inn á þetta mál. En þetta er engu að síður eitt af því sem við verðum að hafa í huga þegar við veltum því fyrir okkur hvers konar breytingar á regluverki fjármálakerfisins við ætlum að innleiða og koma á í samfélagi okkar. Hvers konar framtíðarsýn höfum við á okkar banka- og fjármálakerfi? Viljum við fara í hina gömlu, útvötnuðu hugmyndafræði sem varð okkur að falli í kringum fjármálahrunið, og vera með hina svokölluðu „laissez-faire“-stefnu þegar kemur að markaðnum og fjármálamarkaðnum og bankakerfinu? Ætlum við í alvörunni að falla aftur í þá gryfju? Ég held að enginn hér inni eða neins staðar annars staðar í íslensku samfélagi vilji fara þá leið aftur. En ég held að við þurfum líka að velta því fyrir okkur þegar við tökum svona stórar ákvarðanir sem snúast um framtíðarskipulag á eftirlitskerfi, á fjármálamarkaði hér á landi, að fara á dýptina í þeirri umræðu, nákvæmlega eins og við þurfum á því að halda að fara á dýptina þegar við tölum um stjórnskipuleg álitamál.

Við höfum að mínu viti verið að fjalla um framtíðarskipulag fjármála- og bankakerfisins hér á landi með góðum hætti í efnahags- og viðskiptanefnd. Við höfum kallað til okkar góða gesti og fengið hugmyndir, skoðanir og sýn sérfræðinga varðandi skipulag íslensks fjármálakerfis. Ég tel það vera af hinu góða. Ég vil hrósa formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrst hann er nú hér í salnum, fyrir góðar viðtökur við bónum okkar í minni hlutanum um að fá til okkar gesti til þess að ræða þessi mál á dýptina. Ég held að taka verði þá umræðu sem víðast þegar við fjöllum um eftirlit. Það eimir eftir af gamalli hugmyndafræði þegar ég velti fyrir mér, fyrst ég talaði um „laissez-faire“ nýfrjálshyggjunnar, að vinstra fólk er oft gagnrýnt fyrir að vilja meira eftirlit og meira regluvirki. Það er nú alls ekki rétt vegna þess að við viljum einfaldlega hafa kerfið, markaðinn og fjármálakerfið sem trúverðugast og byggja hér upp einhvers konar gildi og menningu sem við getum öll verið sátt við, til þess að falla ekki í þær gryfjur sem leynst hafa á okkar stuttu vegferð þegar kemur að fjármálamörkuðum og bankakerfum. Við búum ekki yfir sömu reynslu og aðrar þjóðir hvað það varðar, nema þeirri sáru reynslu sem hrunið færði okkur.

Ég held að við þurfum að ganga hægt um gleðinnar dyr, alla vega vanda til verka og efla sjálfstraust okkar í því að marka okkar eigin sýn á það eftirlitskerfi sem við viljum hafa hér og er í samræmi við íslenskar aðstæður, og styrkja þær stofnanir sem fyrir eru, jafnhliða því að innleiða gott regluverk sem kemur frá Evrópska efnahagssvæðinu. Ég held að við höfum öll það sameiginlega markmið að við viljum koma í veg fyrir áföll, við viljum girða fyrir þá veikleika sem er að finna á íslenskum fjármálamarkaði. En til þess þurfum við að fara aðeins meira á dýptina og velta því fyrir okkur sem John Kay segir, þ.e. hver gildi okkar eru og hvernig menning okkar er þegar kemur að þessu regluverki. Þurfum við að veita meira fé til Fjármálaeftirlitsins til þess að það geti sinnt sínum störfum? Eða þurfum við sjálf að leggja fram tillögur til þess að Fjármálaeftirlitið hafi meiri valdheimildir? Þurfum við að velta því fyrir okkur hvort Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið eigi að fara í meira samstarf? Eða þurfum við að leysa úr þeim álitaefnum sem þar eru, þeirri skörun sem er á milli þessara grunnstofnana í samfélagi okkar?

Þetta eru allt spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur og taka yfirvegaða umræðu um um leið og við innleiðum hér lög um evrópskt eftirlitskerfi. Íslenskt fjármálakerfi og íslenskt bankakerfi er öðruvísi en banka- og fjármálakerfi milljónaþjóða. Það hefur sín séreinkenni. En núna þegar við förum í þessa uppstokkun, sem er einstök í íslenskri sögu, þurfum við að vanda til verka og móta okkar eigin sýn og stefnu.