146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[20:12]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vona að lagasetningarvald verði ekki framselt til hinna ýmsu stofnana samfélagsins. Fjármálaeftirlitið hefur í ýmissi löggjöf fengið heimild til að setja reglur og jafnvel reglugerðarvald að því leyti til þar sem því er skipt á milli fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjármálaeftirlits.

Ég er í grundvallaratriðum ósammála því að Fjármálaeftirlitið hafi nokkru sinni skort valdheimildir. Ef Fjármálaeftirlitið gengur í lið með bönkum til að styðja banka til útrásar þá er það ekki skortur á valdheimildum, það er bara röng afstaða innan Fjármálaeftirlitsins. Það var það sem gerðist hér á árum áður. Fjármálaeftirlitið hafði allar heimildir, og fjármálaeftirlit er tiltölulega einfaldur hlutur. Það eru engin geimvísindi, ef menn vilja framfylgja eðlilegu fjármálaeftirliti. Þá hef ég nú stundað það til viðbótar við þær áminningar sem ég hef hlotið frá Fjármálaeftirliti.

Ég tel að í því frumvarpi sem hér er til umræðu sé verið að framselja takmarkað vald til stofnunar sem Ísland á aðild að. Það var rætt, þegar stjórnskipulegum fyrirvara var aflétt hér í þinginu, í þingsályktunartillögu, þannig að ég tel að Fjármálaeftirlitið hafi þær heimildir sem það þarf, getur kallað eftir. Fjármálaeftirlitið hefur aldrei bent á að því hafi verið neitað um heimildir sem það telur sig þurfa á að halda. Þannig að allt hjal um nýfrjálshyggju o.s.frv. er frasalógía sem ég held að eigi heima á einum stað og það er innan þingflokks Vinstri grænna eða Alþýðubandalagsins eða hvað flokkurinn heitir núna.