146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

hlutafélög o.fl.

237. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti og breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Efnahags- og viðskiptanefnd fékk á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra. Þá bárust nokkrar umsagnir.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þeim breytingum er ætlað að einfalda lagaumhverfið en um leið stemma stigu við misnotkun á félagaformunum og bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við skilyrði um búsetu og heimilisfesti.

Vert er að vekja athygli á því að þegar kemur að því að stemma stigu við misnotkun á félagaforminu lúta þær breytingar að heimild til að greiða hlutafé við stofnun hlutafélags og einkahlutafélags með kröfu á hendur stofnendum, missi hæfis stjórnarmanna og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga til setu í stjórn og til að gegna starfi framkvæmdastjóra og afskráningu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra úr hlutafélagaskrá í slíkum tilvikum.

Vert er að benda á að efnahags- og viðskiptanefnd leggur fram nokkrar breytingartillögur. Þær eru fyrst til samræmingar. Þetta eru orðalagsbreytingar til að gæta innbyrðis samræmis í frumvarpinu en einnig er gerð tillaga að breytingu á 30. gr., að hún orðist með þeim hætti sem stendur í nefndarálitinu, eða breytingartillögum sem því fylgja, og ég fer ekki í frekar. En vert er að benda á að Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemd við frumvarpið og hvöttu til þess að leitað yrði leiða til að koma á sjálfvirku eftirliti með hæfi stjórnarmanna og framkvæmdarstjóra. Nefndin er sammála því að rétt sé að leita leiða til aukinnar sjálfvirkni í þessum efnum. Því miður liggja útfærðar leiðir ekki fyrir að svo stöddu og leggur nefndin því ekki til frekari breytingar á viðkomandi ákvæðum að þessu sinni.

Undir nefndarálit þetta ritar sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Albert Guðmundsson og Bessí Jóhannsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason en með fyrirvara rita Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

(Forseti (SJS): Forseti vill taka fram að misritun var í handriti forseta þegar hann las að um væri að ræða meirihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar. Hið rétta er að hér er um eitt sameiginlegt nefndarálit frá efnahags- og viðskiptanefnd að ræða.)