146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

hlutafélög o.fl.

237. mál
[20:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara tæpa á þeim fyrirvara sem kemur fram í nefndarálitinu að ég og hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir höfum gert, en það er við klausu sem kemur inn á athugasemd Samtaka atvinnulífsins, sem gerðu athugasemd við a-lið 9. gr. og a-lið 21. gr. frumvarpsins og hvöttu til að leitað yrði leiða til að koma á sjálfvirku eftirliti með hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Útfærðar leiðir liggja ekki fyrir að svo stöddu. Nokkrar umræður fóru fram um þetta atriði á vettvangi nefndarinnar. Nefndin er, eins og fram kemur í nefndarálitinu, sammála um að rétt sé að leita leiða til aukinnar sjálfvirkni í þessu efni, en þar sem útfærðar leiðir liggja ekki fyrir og nefndin lagði ekki til frekari breytingar á viðkomandi ákvæðum þótti okkur þingmönnunum rétt að bóka að við gerðum fyrirvara við nefndarálitið. Ég vildi eingöngu vekja athygli á því um hvað sá fyrirvari snýst.