146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði nokkuð ítarlega um þetta mál, fékk til sín fjölda gesta og margar umsagnir. Nefndin hefur eftir umfjöllun sína náð saman um afgreiðslu málsins og þess vegna skilaði hún einu nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir.

Gildandi lög um málefnið tóku gildi 2001. Frumvarp til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni var lagt fram á 144. þingi en náði ekki fram að ganga. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er nokkuð einfaldara í sniðum, ekki er ætlað að gera efnislegar breytingar á gildandi löggjöf umfram það sem nauðsynlegt er til að innleiða EES-gerðir og veita lagastoð til að tilskipanir megi innleiða með reglugerðum. Frumvarpinu er ætlað að tryggja eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu fimm gerða er snúa að landflutningum.

Ég ætla að fara hér aðeins yfir þær breytingar sem nefndin leggur til að verði gerðar á þessu frumvarpi.

Fyrst aðeins um einkarétt samkvæmt 7. gr. Mikil umræða fór fram innan nefndarinnar um 7. gr. frumvarpsins sem kveður á um að Vegagerðin geti veitt sveitarfélögum, byggðasamlögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga einkarétt á að skipuleggja og sjá um reglubundna farþegaflutninga á tilteknum svæðum, leiðum eða leiðakerfum. Sambærilegt ákvæði er nú að finna í 7. gr. laga nr. 73/2001. Samkvæmt ákvæðinu getur Vegagerðin veitt einkarétt þar sem það er talið nauðsynlegt til að tryggja þjónustu sem varðar almannahagsmuni allt árið, m.a. að þeim skilyrðum uppfylltum að þjónusta reglubundinna farþegaflutninga á viðkomandi svæði verði ekki rekin á viðskiptagrundvelli.

Nefndin leggur áherslu á mikilvægi almenningssamgangna og telur að nauðsynlegt sé að veita einkarétt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum svo að tryggja megi forsendur til að bjóða upp á leiðakerfi almenningssamgangna um landið allt á heilsársgrundvelli. Í 1. tölulið 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að tryggt skuli að samkeppni fái að halda sér á þeim svæðum þar sem hún er þegar fyrir hendi. Af þessu tilefni sér nefndin ástæðu til að taka fram að hún lítur ekki svo á að akstur hópferðafyrirtækja hluta úr ári, á leiðum sem njóta einkaréttar, þýði að til staðar sé samkeppni í skilningi ákvæðisins. Nefndin tekur undir framkomnar athugasemdir frá fulltrúum sveitarfélaga um að markmið þessa ákvæðis sé að standa vörð um almenningssamgöngur sem boðið er upp á á grundvelli samninga Vegagerðarinnar við landshlutasamtök.

Með þessu er vísað í breytingartillögur sem nefndin leggur til við frumvarpið og þingmenn geta kynnt sér. Ég mun kannski fara aðeins yfir það á eftir en ætla að tæpa á þeim stórum málum sem nefndin tók afstöðu til og leggur til breytingar á.

Annað slíkt mál er notkun smærri bifreiða en níu farþega. Margir af umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar við umfjöllun hennar um þetta mál kölluðu eftir því að aðilum í ferðaþjónustu yrði veitt heimild til að nýta bifreiðar fyrir færri en níu farþega. Til grundvallar breytingu í þá veru lægju einkum sjónarmið um öryggi, umhverfisvernd og hagkvæmni. Iðulega væri ekið með fámenna hópa á mun stærri bifreiðum en þörf krefði vegna þess að regluverkið heimilaði ekki notkun smærri ökutækja til slíks aksturs. Var meðal annars kallað eftir því af aðilum sem sinna ferðaþjónustu að tekið yrði upp sérstakt ferðaþjónustuleyfi líkt og lagt hefði verið upp með í áðurnefndu frumvarpi til laga um farþegaflutninga í atvinnuskyni á 144. löggjafarþingi.

Fulltrúar úr röðum leigubílstjóra hafa í umsögnum sínum og á fundum nefndarinnar viðrað andstæð sjónarmið og lagst gegn breytingu í þá veru sem hér er nefnd. Telja þeir að með því að heimila aðilum í ferðaþjónustu akstur smærri bifreiða en níu farþega yrði gert inngrip í þeirra starfsemi þar sem leigubifreiðar eigi einkarétt á akstri með færri en níu farþega.

Nefndin leggur til breytingu í þá veru að akstur smærri bifreiða en níu farþega verði heimilaður samkvæmt lögunum í tilvikum reglubundins farþegaflutnings samkvæmt 7. gr., skólaaksturs, aksturs vegna ferðaþjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og í ferðaþjónustu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum samkvæmt sérstöku ferðaþjónustuleyfi. Fyrirmynd ákvæðis um ferðaþjónustuleyfi er sótt til áðurnefnds frumvarps um farþegaflutninga í atvinnuskyni frá 144. löggjafarþingi.

Ferðaþjónustuleyfið gerir ráð fyrir að nota megi bifreiðar fyrir færri en níu farþega. Til að gæta aðgreiningar milli ferðaþjónustu og leigubifreiða eru þær hömlur lagðar á notkun ferðaþjónustuleyfis að það megi einungis nýta til að sinna þjónustu sem veitt er samkvæmt fyrir fram umsömdu gjaldi og að um sé að ræða að minnsta kosti hálfsdagsferð eða hluta af annarri viðurkenndri ferðaþjónustu, svo sem flutning farþega til eða frá sérhæfðri afþreyingu sem er hluti af ferðaþjónustu. Með sérhæfðri afþreyingu í skilningi ákvæðisins er átt við afþreyingu sem ferðaskipuleggjandi býður upp á og sérhæfir sig í, svo sem veiði, snjósleðaferðir, hestaferðir, flúðasiglingar o.s.frv. Telur nefndin að með ákvæðinu sé komið til móts við báða aðila í þessum efnum. Þannig geti ferðaþjónustuaðilar veitt þjónustu sína með umhverfisvænni hætti en skilyrðunum sem því eru sett er ætlað að koma í veg fyrir alvarlegt inngrip ferðaþjónustu í þann markað sem leigubifreiðar þjóna og hafa rétt á samkvæmt öðrum lögum.

Svo að ég tali fyrir mig í þessu máli — ég hygg að aðrir nefndarmenn ræði þessi mál eitthvað frekar taki þeir til máls — þá er það mín skoðun að nauðsynlegt sé að setjast aðeins yfir þessi mál meira en gert er hér þegar kemur að því umhverfi sem við búum akstri með farþega. Þetta er hálfgerður frumskógur, hver má keyra með hverja og hvert og hver hefur einkaleyfi á hverju. Við í nefndinni reyndum okkar besta, og ég held að okkur hafi tekist mjög vel upp með það, til að koma með skýrar reglur hvað varðar akstur á minni bílum en níu manna, reyndar er það við ferðaþjónustuleyfi, en ég beini því til stjórnvalda að skoða enn frekar hvernig þessum málum er háttað hér.

Ég segi það aftur fyrir mína parta, hvað það varðar að geta ekið með farþega á bílum sem taka færri en níu farþega, að það er í anda þess sem við viljum starfa eftir sem er umhverfisvænn akstur. Ég held því að það sé til bóta að hafa þetta ákvæði inni og skilyrða það á þann hátt sem gert er svo að ekki sé gengið um of á rétt til að mynda leigubílstjóra sem hafa haft einkaleyfi á akstri með svo fáa farþega.

Aftur segi ég fyrir mína parta að mér finnst skynsamlegt ef sest yrði yfir þetta og ég beini því jafnframt til sveitarfélaga, kannski ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, að skoða þessi mál, hvernig bílar megi aka hvar og hversu mikið er notast við hópferðabíla í akstri í ferðaþjónustu og þá hvert, upp að hóteli eða hvert það er.

Því betur sem við skoðum þetta mál því betur getum við gert það úr garði. Þó að það sé mjög til bóta þá leysir það ekki allar þær flækjur sem eru uppi á þessu sviði.

Svo að ég snúi mér aftur að nefndarálitinu, þá er hér fjallað um undanþágu 2. mgr. 18. gr. Í 1. mgr. 18. gr. frumvarpsins kemur fram að óheimilt sé að synja farþega um bókun eða farmiða í ferð hér á landi, eða um aðgang að hópbifreið, á grundvelli fötlunar. Í 2. mgr. er að finna undanþáguheimild frá ákvæðinu ef öryggisástæður eða sjónarmið um rekstrarlega hagkvæmni krefjast þess. Undanþáguákvæði 2. mgr. var harðlega gagnrýnt, m.a. í umsögnum Alþýðusambands Íslands, MND-félagsins og Sjálfsbjargar, sem og á fundum nefndarinnar með fulltrúum þessara aðila. Nefndin tekur undir framkomna gagnrýni á að lögfest sé heimild til að synja farþega um aðgang að hópferð vegna fötlunar á grundvelli sjónarmiða um rekstrarlega hagkvæmni. Leggur nefndin til að öryggissjónarmið þurfi að liggja að baki slíkri synjun og að orðin „og rekstrarlega hagkvæman“ falli brott úr ákvæðinu.

Með öðrum orðum teljum við í nefndinni að ekki sé unnt að synja farþega um aðgang að hópbifreið vegna fötlunar nema til þess komi öryggissjónarmið. Það er okkar skoðun og rekstrarleg hagkvæmni eigi ekki heima í því.

Í 29. gr. frumvarpsins er að finna refsiákvæði sem segir að brot gegn ýmsum greinum laganna geti varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nefndin telur ekki forsendur fyrir því að kveðið sé á um fangelsisrefsingu við brotum gegn lögum þessum og leggur til þá breytingu að refsingar samkvæmt lögunum einskorðist við sektir, með þeim fyrirvara að þyngri refsing liggi við broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Nefndin tekur þó undir framkomin sjónarmið um að viðurlög sem beitt er þurfi með skilvirkum hætti að letja til lögbrota og telur að það sé tryggt með því að kveða ekki á um þak á sektir líkt og gert er í gildandi löggjöf um málefnið.

Nefndin telur sem sagt að kannski sé ekki tilefni til að beita fangelsisvist við brotum á þessum lögum, en það að ekki sé kveðið á um þak á sektir letji með skilvirkari hætti til lögbrota en raunin er með gildandi löggjöf.

Auk framangreindra breytinga leggur nefndin til breytingu á 15. gr. frumvarpsins sem fjallar um gerð samninga um opinbera þjónustu á sviði farþegaflutninga á vegum. Breytingin miðar að því að færa orðalag ákvæðisins nær orðalagi EES-gerðarinnar sem það byggist á. Í stað þess að fremst í greininni verði kveðið á um skyldu sveitarstjórna eða annarra einkaréttarhafa samkvæmt 7. gr. til að bjóða út rekstur reglubundinna farþegaflutninga á viðkomandi svæði verði þannig í 1. mgr. kveðið á um heimild einkaréttarhafa til að annast aksturinn sjálfir eða fela hann rekstraraðila sem er alfarið í eigu viðkomandi einkaréttarhafa. Í 2. mgr. verði kveðið á um almenna skyldu til að bjóða reksturinn út verði heimild 1. mgr. ekki nýtt.

Hér leggur nefndin til að málsgreinunum sé einfaldlega snúið við miðað við það sem er í frumvarpsdrögunum. Nefndin leggur það til á grunni orðalags EES-gerðarinnar, því að þar er það þannig að 1. mgr. kveður á um að einkaréttarhafinn geti annast reksturinn sjálfur, t.d. sveitarfélög, eða falið hann rekstraraðila sem er í eigu þeirra, samanber Strætó. Ef sú heimild er ekki nýtt verði hægt að bjóða reksturinn út. Við teljum mikilvægt að hafa þetta í samræmi við það sem er í EES-gerðinni.

Nefndinni bárust athugasemdir um að orðalag 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins, um að Samgöngustofu væri heimilt að takmarka notkun strætisvagna utan þéttbýlis, væri óheppilegt. Varhugavert væri að framselja vald með þessum hætti til stofnunar innan stjórnsýslunnar, einkum þar sem hugtakið strætisvagn væri ekki skilgreint í lögum. Sambærilegt ákvæði er að finna í gildandi lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur það aldrei verið nýtt. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 73/2001 segir um ákvæðið að öryggissjónarmið búi fyrst og fremst að baki því, án þess að það sé skýrt nánar. Nefndin fellst á framkomin sjónarmið um að sú heimild sem ákvæðið færir Samgöngustofu til að takmarka akstur strætisvagna utan þéttbýlis sé of óskýr og leggur til að ákvæðið falli brott.

Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis eða til leiðréttingar og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Að lokum er í nefndarálitinu að finna önnur sjónarmið.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram ábendingar, m.a. frá Strætó bs. og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, svo og frá landshlutasamtökum, um að nauðsynlegt væri að sett yrði sérstök lög um almenningssamgöngur. Nefndin tekur að hluta til undir þau sjónarmið og telur að á næstu árum, í tengslum við framþróun almenningssamgangna, sé æskilegt að mótuð verði sérstök lagaumgjörð um almenningssamgöngur sem þjóna mikilvægu þjóðhagslegu og umhverfislegu hlutverki. Nefndin hefur orðið þess áskynja að lagaumhverfið um almenningssamgöngur, leigubifreiðaakstur og hópferðaakstur í tengslum við ferðaþjónustu er flókið og torvelt fyrir aðila á markaðnum að rata um. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að í framhaldi af samþykkt þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar fari fram heildarendurskoðun á lagaumhverfi farþegaflutninga á Íslandi með einföldun að leiðarljósi.

Nefndinni bárust við umfjöllun sína ábendingar, m.a. frá Alþýðusambandi Íslands, um að brögð væru að því að erlendir ferðaþjónustuaðilar stunduðu farþegaflutninga hér á landi án tilskilinna leyfa og án þess að virða ákvæði íslenskra laga, til að mynda um lágmarkslaun bílstjóra. Þetta skekkti samkeppnisstöðu aðila sem fylgdu lögum og reglum á markaðnum og tilfinnanlega skorti eftirlit og önnur úrræði til að bregðast við vandanum. Nefndin sýnir áhyggjum af þessum atriðum skilning og beinir því til ráðuneytisins að fram fari könnun í samræmi við þessar ábendingar og tillögur gerðar að úrræðum til að sporna við slíkri háttsemi.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita Valgerður Gunnarsdóttir formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Einar Brynjólfsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Pawel Bartoszek og Teitur Björn Einarsson.

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á það að ég tel, sem og fleiri í nefndinni, að skoða þurfi vel það sem kemur fram í breytingartillögu nr. 6 frá nefndinni þar sem segir um breytingar á 8. gr., með leyfi forseta:

„Á undan orðunum „og akstur skólanemenda“ í 2. málslið komi: ferðaþjónusta fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks.“

Við beinum því til nefndarinnar, okkar sjálfra, að huga þurfi að því hvort þau frumvörp sem voru til umræðu fyrr í kvöld á þskj. 571 og 572, annars vegar um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og hins vegar um félagsþjónustu sveitarfélaga, eigi á einhvern hátt við. Það þurfi að vísa í þau, þ.e. að tryggja þurfi að vísað sé í rétt lög. Að öðru leyti skýra breytingartillögurnar sig sjálfar og ég hef farið nokkuð yfir þær.

Mig langar að ítreka það sem kemur fram í nefndarálitinu, sem ég tel nauðsynlegt og ég kom aðeins inn á, að skoða þurfi þetta lagaumhverfi betur. Sérstaklega tel ég nauðsynlegt að hefja sem fyrst vinnu við að greina enn betur á milli laga um almenningssamgöngur og um aðra farþegaflutninga. Strætó bs. hefur reglulega, í þau skipti sem frumvarp í þessa veru hefur komið fram, kallað eftir þessu, telur það skýra og einfalda það umhverfi sem það þjóðþrifafyrirtæki starfar í. Ég held að í raun sé gott að setjast yfir það sem fyrst. Í nefndarálitinu er vísað til þeirra miklu breytinga sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. Ég minni á að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru með borgarlínu í bígerð sem hefur ratað inn í stjórnarsáttmála og er meðal annars að finna í fjármálaáætlun til fimm ára. Reyndar eru fjármunir ekki eyrnamerktir strax, kannski er það eðlilegt, en í það minnsta er minnst á hana. Breytingar eru í farvatninu þegar kemur að almenningssamgöngum. Ég tel mjög nauðsynlegt að taka til ríkrar endurskoðunar það umhverfi eins og við í nefndinni leggjum til.

Að því sögðu lýk ég máli mínu og ítreka að vísað verði í rétt lög, annars vegar í breytingartillögunni, hvort það eru lög um málefni fatlaðs fólks eða þau lög sem ég nefndi hér áður, og hins vegar er þetta að finna á bls. 3 í nefndarálitinu þar sem vísað er til sömu laga þannig að við tryggjum það í vinnunni sem fram undan er að allt sé kórrétt þegar kemur að því að vísa til réttra laga.