146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[20:44]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir þessa framsögu sem var mjög ítarleg og góð og þarf í rauninni ekki miklu við að bæta, en hann vann ásamt hv. þingmönnum Bryndísi Haraldsdóttur og Pawel Bartoszek nefndarálitið með nefndarritara að langmestu leyti og það er afskaplega vel unnið hjá þeim.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að hnykkja á. Eins og fram kom í máli þingmannsins Kolbeins Óttarssonar Proppés fengum við gríðarlega marga gesti fyrir nefndina og mörg sjónarmið komu fram, enda snertir þetta málefni alla landsmenn. Við fengum góðar ábendingar og tókum tillit til þeirra, en ég vil þó segja að það sem við rekjum í nefndaráliti er kannski það sem stendur upp úr sem og þær breytingartillögur sem hafa verið gerðar við frumvarpið eins og það var flutt af hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Og þar er ákvæðið um einkaréttinn. Við fengum, og höfum fengið á undanförnum árum líka, ábendingar frá sveitarfélögum sem hafa haldið úti almenningssamgöngum. Það hefur virkilega borið á því að það hefur verið keyrt ofan í þessar einkaréttarleiðir og leiðakerfi. Við teljum að með þessum breytingum séum við að taka á því. Við viljum gjarnan að almenningssamgöngur um land allt geti staðið undir nafni og að það sé virt að þeir aðilar sem hafa þennan einkarétt keyra árið um kring, óháð því hvort það er háannatíð eða færri farþegar. Þeir halda úti þessari þjónustu og það ber að virða, og styðja líka. Nefndin er sammála um að þetta skipti miklu máli.

Eins og framsögumaður rakti fór nefndin yfir athugasemdir sem lutu að því að ýmis ferðaþjónustufyrirtæki nota allt of stórar bifreiðar til að flytja fáa farþega með tilheyrandi kostnaði og tilheyrandi mengun. Við viljum lagfæra það með svonefndu ferðaþjónustuleyfi sem við leggjum til að verði veitt. Til að styrkja betur þau fyrirtæki og aðgreina frá leigubílum leggjum við til að ökutæki þessara ferðaþjónustuleyfishafa verði merkt rekstraraðila.

Við tókum líka á undanþágunni varðandi þá sem búa við fötlun og hv. þm. Kolbeinn Proppé rakti það mjög vel og okkar tillögur til breytingar á því. Það var líka farið ofan í refsiákvæði sem gerði ráð fyrir að hægt væri að fangelsa þá sem brytu þessi lög. Okkur fannst það fullþungt fyrir þá aðila og lögðum til að það yrði fellt út að um fangelsisrefsingu yrði að ræða heldur yrði farið í fjársektir.

Það kom líka fram, og menn höfðu af því áhyggjur, að erlendir ferðaþjónustuaðilar sem stunda farþegaflutninga hér á landi gera það án tilskilinna leyfa, eru að flytja inn í landið bæði búnað og matvæli og setja sig niður á stöðum þar sem þeir geta nýtt þjónustu sem kannski er bara ætluð fyrir almenning. Við bendum á að það sé full ástæða til að fylgjast með þessu og láta taka á því.

Eins og ég sagði í upphafi er búið að fara vel yfir þetta og fleiri nefndarmenn munu koma í ræðu. Ég vil sérstaklega þakka nefndinni fyrir afar gott starf, þolinmæði og það að leggja á sig mikla vinnu til að við gætum gert þetta frumvarp, fyrsta frumvarpið sem kemur frá nefndinni, sem best úr garði.