146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[20:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Mikilvægi almenningssamgangna í sjálfu sér liggur algjörlega fyrir. Um það er fjallað í samgönguáætlun á hverjum tíma o.s.frv. Það hlýtur að vera hluti af þeim loftslagsmarkmiðum sem Ísland hefur einsett sér að uppfylla að gera veg almenningssamgangna sem mestan bæði í dreifbýli og þéttbýli. Það eru gríðarlega mikil tækifæri í þeim efnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, með því að auka vægi almenningssamgangna svo um munar.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið svo langt sem það náði. Mér finnst það umhugsunarefni hvort búa ætti um þessi tilmæli til ráðuneytisins, eins og fram kemur í nefndaráliti þar sem nefndin beinir því til ráðuneytisins að í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps fari fram heildarendurskoðun á lagaumhverfi farþegaflutninga á Íslandi með einföldun að leiðarljósi. En nefndin velur í raun að láta þar við sitja að beina því með þessum hætti í nefndaráliti til ráðuneytisins.

Af því að hv. þingmaður náði ekki í sínu fyrra svari að bregðast við nákvæmlega þeim hluta vil ég ítreka þá spurningu mína: Telur þingmaðurinn það koma til álita að bæta við bráðabirgðaákvæði til þess að nefndin tali skýrt við ráðuneytið um að þessi endurskoðun hefjist, og setja ráðuneytinu einhver tímamörk í þeim efnum þannig að þingið tali enn þá skýrar í því hvernig við viljum taka næsta skref? Ég skynja á þessu nefndaráliti að viljinn sé í sjálfu sér alveg skýr, en óttast að slíkt verkefni hafi tilhneigingu til að lenda neðar í bunkanum sem hluti af nefndaráliti en það hefði gert ef þetta væri skýrt bráðabirgðaákvæði.