146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:03]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa flutt þakkir til framsögumanns nefndarálits og formanns nefndarinnar og annarra nefndarmanna sem með mér eru í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem okkur tókst sameiginlega að landa nefndaráliti með sameiginlegum breytingartillögum sem ég styð heils hugar og stend að.

Hér er að mínu viti verið að gera margt mjög gott. Við erum að innleiða Evrópureglur sem ég hygg að verði jákvæðar fyrir þennan geira. Önnur breyting sem ég tel sérstaklega jákvæða er sú að við ákveðnar aðstæður verði heimilt að flytja farþega í bílum sem taka færri en níu farþega. Þrátt fyrir að auðvitað séu þeir til innan atvinnulífsins sem hafa gagnrýnt að þarna sé verið að búa til enn eitt leyfið, ferðaþjónustuleyfi, er auðvitað verið að feta ákveðinn milliveg milli sjónarmiða þeirra sem telja að það eigi að ríkja ákveðið frjálsræði í þessum efnum og þeirra sem vilja standa vörð um þá hagsmuni sem eru fyrir og tryggja ákveðin gæði og eftirlit með þessari starfsemi.

Hér er margt gott. Mig langar að viðra örlítið sjónarmið mín í þessum málum, sérstaklega þau sem lúta að almenningssamgöngum. Það þarf enginn að efast um að sá sem hér stendur er vildarvinur almenningssamgangna. Ég fékk ekki bílpróf fyrr en dálítið seint og notaði almenningssamgöngur, bæði hérlendis og annars staðar, sem minn aðalsamgöngumáta fram undir þrítugt þannig að ég þekki það að vilja sjá veg þessara samgöngukosta sem besta. Ég lít reyndar auðvitað þannig á almenningssamgöngur að þær séu ekki einungis þær samgöngur sem almenningur borgar fyrir, heldur snýst það miklu frekar um heildaráferðina, að það sé einhver hópáferð á samgöngukostunum þar sem menn ferðast saman, hvort sem er í flugvél, rútu eða strætó.

Svo við segjum það bara hreint út hefur rekstur almenningssamgangna á Íslandi og reyndar líka vestan hafs undanfarna áratugi ekki endilega verið neinn dans á rósum. Farþegum hefur fækkað. Ég get tekið Bandaríkin sem dæmi þar sem ferðir með Greyhound-rútum fóru úr því að vera einn alvinsælasti ferðamátinn niður í það að aðsóknin hrundi algjörlega. Menn tala um að frá 1960 fram til byrjunar þessarar aldar hafi farþegum fækkað um yfir 70%.

Það er reyndar ánægjulegt að segja frá því, og mig langar aðeins að varpa fram þeirri hugmynd hér, að það tókst að snúa þeirri þróun við með ákveðnum hætti. Fyrir u.þ.b. tíu árum hófst aftur vöxtur í þessum fólksflutningum á landi í Bandaríkjunum, m.a. með þeim hætti að ný fyrirtæki ruddu sér leið inn á markaðinn. Eitt þeirra var fyrirtæki sem dró breskt vörumerki, Megabus, inn á Bandaríkjamarkað. Þar breyttu menn viðskiptamódeli í fólksflutningum að einhverju leyti, farþegaflutningum á landi, og fólk fór að bjóða upp á ferðir sem fóru ekki frá miðbæjum viðkomandi borga heldur frá einhvers konar jaðarsvæðum til að spara þann kostnað sem hlýst af því að fara í miðborgina. Fyrirtækin buðu upp á ókeypis netaðgang fyrir alla sem ferðuðust með rútunni og hluti miðanna var seldur á mjög lágu verði, einn dollara kannski fyrir fyrstu þrjú, fjögur sætin í hverri ferð.

Þetta viðskiptamódel gerði það að verkum að farþegum með rútum á landi í Bandaríkjunum fjölgaði talsvert mikið. Ég hef séð tölur um að þeim hafi fjölgað um 35% frá árinu 2008 til ársins 2016. Það er því vel hægt að snúa þessari þróun við vegna þess að þrátt fyrir að menn hefðu kannski haldið að flugið væri komið til að vera og myndi alltaf hafa yfirhöndina voru ákveðnir kostir við þennan samgöngumáta sem menn mátu þannig að þeir völdu hann frekar. Einn þeirra var verð, þessir miðar voru mjög ódýrir. Svo held ég að netið hafi haft sitt að segja. Þrátt fyrir að flugið tæki oft skemmri tíma gátu menn náð betri óslitinni samgönguupplifun. Frá því að farþeginn sest inn í rútuna þar til hann stígur út úr henni er ekkert sem truflar, engin öryggisleit og engin lending þar sem farþeginn þarf að kveikja og slökkva á tölvunni o.s.frv.

Það er alveg hægt að nýta þá kosti sem fylgja hópflutningum á landi með öðrum almenningssamgöngum. Ég nefni það einungis hér vegna þess að þetta frumkvæði kom frá einkaaðilum með einhverjum hætti. Ég stend heils hugar á bak við það sem hér er sagt um almenningssamgöngur, um nauðsyn þeirra og nauðsyn þess að viðhalda einkarétti til að tryggja góðan rekstrargrundvöll almenningssamgangna um allt land, en við megum samt ekki loka það mikið á það að við komum í veg fyrir frumkvæði og nýsköpun eins og þetta. Í prinsippinu hljótum við öll að vera sammála um að það sem skiptir mestu máli sé umhverfisverndin og hagkvæmnin sem fylgir því að fólk ferðist saman og geti átt þann möguleika að ferðast saman ef það vill ekki ferðast á bíl.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri, herra forseti. Hér er auðvitað verið að innleiða EES-reglur þannig að Viðreisnar hjarta mitt hoppar kátt og glatt. Ég vona að þessi lög, nái þau að verða að veruleika, verði til þess að efla farþega- og farmflutninga á Íslandi og einnig almenningssamgöngur, hvort sem er bara með því sem hér er að gerast eða þeirri vinnu sem við förum í í kjölfarið.