146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Án þess að ég ætli að lengja þessa umræðu mjög mikið um nefndarálit frá umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi þá vildi ég samt kveðja mér hljóðs til þess að fagna sérstaklega breytingartillögu hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem lýtur að undanþágu frá 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins sem snýst um að ekki eigi að vera hægt að synja farþega um aðgang að hópferð vegna fötlunar á grundvelli sjónarmiða um rekstrarlega hagkvæmni. Mér finnst alveg gríðarlega mikilvægt að nefndin leggi til að það sem snýr að rekstrarlegri hagkvæmni verði fellt brott úr liðnum og verð að segja að það væri algjör tímaskekkja að gera það ekki.

Fyrr í dag mælti hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir tveimur frumvörpum, annars vegar um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og hins vegar um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem bæði lúta að því að breyta lögum hér á landi í takt við það að við erum búin að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna. Þó svo að það hafi verið nokkur umræða um þessi frumvörp og sjónarmið og sumir hv. þingmenn vilji ganga lengra í öðrum málum held ég að við séum öll hjartanlega sammála um að haga þurfi löggjöf í takt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var á Alþingi á síðasta þingi.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks veitir fötluðu fólki engin ný réttindi. Það er ekkert nýtt í honum. Það er aðeins verið að árétta að fatlað fólk á sama rétt og aðrir í almennum lögum. Í 3. gr. samningsins sem fjallar um almennar meginreglur kemur fram að hluti af þeim meginreglum er: Bann við mismunun, það að fatlað fólk geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar, jöfn tækifæri og aðgengi. Hér er enginn fyrirvari um að þetta eigi að uppfylla ef einhver rekstrarleg hagkvæmni truflar þau mál. Þetta er bara það sem við þurfum með lögum okkar að uppfylla samkvæmt samningnum.

Samningurinn fjallar sérstaklega um aðgengismál. Það skiptir máli í samhengi við þetta mál þar sem segir í 9. gr. um aðgengi, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni …“

Þess vegna er svo mikilvægt við alla lagasetningu sem kemur frá okkur á Alþingi að ekki sé gengið gegn þeim samningi sem allt fatlað fólk bindur miklar vonir við að verði til þess að breyta stöðu þess í samfélaginu og verði til þess að auka samfélagsþátttöku þess. Þess vegna vona ég svo sannarlega að það verði meiri hluti á þingi fyrir breytingartillögu hv. umhverfis- og samgöngunefndar og leyfi mér raunar að vera nokkuð bjartsýn vegna þess að nefndin skilaði einu sameiginlegu nefndaráliti.

Þetta skiptir líka máli vegna þess að viðhorfin til fatlaðs fólks skipta máli. Viðhorfin geta komið fram í orðum sem eru jafnvel falin inni í textum um það að réttindi fólks eigi ekki rétt á sér nema þau kosti ekkert. Það er nákvæmlega það viðhorf sem er niðrandi og niðurlægjandi fyrir fólk.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en fagna aftur þessari breytingartillögu. Við eigum örugglega eftir að þurfa að gera breytingar til þess að ná enn þá betur utan um aðgengismál fatlaðs fólks, en ég held að þetta sé virkilega mikilvægt skref. Það er með slíkum skrefum sem við getum gert fatlað fólk að fullgildum þátttakendum í samfélaginu. Eitt skref í einu.