146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:26]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við nefndarmenn sem stöndum að þessu áliti komum eðlilega í pontu hver af öðrum. Það er ekki nema von því að almenningssamgöngur eru stórmál. Það er mjög ánægjulegt að sjá þetta sameiginlega álit sem sýnir hvað sum mál eru í raun þverpólitísk, alls ekki öll reyndar. Ég lít á þessi almenningssamgöngumál fyrst og fremst út frá loftslagsmálum og þjónustuhlutverki við almenning. Loftslagsmálin eiga að vera spegill almenningssamgangna að stórum hluta því að lengst af horfðu menn fyrst og fremst á hagkvæmnina, voru mikið að spá í tap af almenningssamgöngum og annað slíkt. Hagkvæmnin átti að skipta miklu máli. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni á undan, á mjög fáum stöðum er hægt að reka almenningssamgöngur með raunverulegum hagnaði. Það er kannski hægt í sumum löndum en ég á eftir að sjá það gerast, kannski með borgarlínunni á Íslandi, en það verður þá eingöngu reksturinn eins og fram kom.

Við leitum auðvitað að raunhæfum lausnum, jafnt innan bæjar í stærri bæjum á suðvesturhorninu sem annars staðar á landsbyggðinni. Þess vegna hef ég oft horft á skrif eða hlustað á umræður um lestarsamgöngur af ýmsum toga, með jarðgöngum og öllu tilheyrandi á Íslandi, og hef leyft mér að hrista höfuðið vegna þess að þar sem ég þekki til byggjast lestarsamgöngur, léttlestir eða þungalestir, neðanjarðarlestir eða venjulegar járnbrautarlestir, á miklu stærri samfélögum en er á Íslandi og alls ekki eingöngu á túrisma.

Þetta er nokkuð sem við eigum kannski eftir að sjá seinna, kannski á næstu öld, þegar búið verður að járnbrautarvæða eða sporvagnsvæða, eða hvað við viljum kalla þetta, Ísland að verulegu leyti. Þetta er framtíðarsöngur.

Þegar ég var að hugsa um þessi mál datt mér í hug frásögn af ágætum manni, vindlareykjandi eins og hann var kallaður, Bjarna frá Vogi, sem var hér frammámaður í pólitík. Hann fór til Kristjaníu, eða Óslóar, á þriðja áratugi 20. aldar til að kynna sér sporvagna og járnbrautarlestir. Þetta var 1926 eða 1927. Þið sjáið hvað Íslendingar voru þá farnir að horfa til framtíðar, 150.000 eða þar undir, svo þetta er löng saga.

Svo kemur að stóru máli sem skiptir ekki litlu í öllum umræðum um almenningssamgöngur, vegabótum. Mér skilst að það þurfi 1.400 milljarða kr. til að gera alla höfuðvegi á Íslandi að einhvers konar evrópskum vegum, ná þeim lágmarkskröfum sem gerðar eru til vega á meginlandinu. Það er ekkert smotterí. Það er u.þ.b. tvisvar sinnum tekjuhlið ríkissjóðs.

Ég fer ekki fram á það, en það er alveg ljóst að greiðar almenningssamgöngur krefjast bæði góðra vega og fleiri jarðganga. Við skulum horfa til ríkisfjármálaáætlunarinnar eins og hún lítur út núna og þá sjáum við ekki mikið svigrúm næstu fimm árin til stórra hluta í þessum efnum.

Nóg um það. Meginatriðin eru ljós í þessari innleiðingu og viðbótum við hana, einkaleyfin eiga að vera tryggð þar sem slíkt á við í opinberum rekstri allt árið og það sem búið er að minna á með minni bíla en níu manna til ferðaleyfishafa þegar rætt er um tiltekna þjónustu. Síðast en ekki síst er það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á, okkur tókst að kippa röngum orðum út úr þessu frumvarpi.

Það er mjög brýnt að hyggja að nýjum lögum um almenningssamgöngur og farþegaflutninga. Það er sennilega hægt að sameina þetta í einum lagabálki. Það er mjög margt sem þarf að hyggja að í sambandi við sérstaklega farþegaflutningana vegna þess að þar er allt farið að rekast hvert á annars horn, einfaldlega vegna þess að hagsmunir hópferðabílafyrirtækja, leigubíla og ferðaleyfishafa, fléttast á ýmsan máta saman og menn eru ekki á eitt sáttir um hvernig skuli haga því öllu saman. Ef til vill þarf að kveða nánar á um það í frumvarpinu, bráðabirgðaákvæði eða nefndaráliti til að ýta á skjóta afgreiðslu á slíku.

Ég ætla eins og aðrir að þakka fyrir samvinnuna í nefndinni, formanni jafnt sem þingmönnunum. Þetta var mjög skemmtileg vinna og líka þegar sumir gestanna brýndu sig. Þetta voru nærri 50 gestir og mér er til efs að jafn margir gestir komi til nefndanna í mörgum tilvikum. Það eru mjög ólíkar skoðanir á akstri fyrir gjald með fólk, enda er það mikilvægt mál.

Herra forseti. Þegar upp er staðið held ég að þetta hafi verið vel ásættanleg lending og þá í almannahag. Það er mikilvægt. Við sem tilheyrum Vinstri grænum erum mjög inni á félagslegum lausnum.