146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:32]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp vegna þess að bæði í ræðu þingmanns og í ræðunni þar á undan hefur komið fram skoðun sem mætti skilja með þeim hætti að ég ætti mér draum um að almenningssamgöngur yrðu einhvern tímann óríkisstyrktar. Þann skilning hef ég alls ekki. Ég er nógu raunsær til að vita það. Ég veit líka að ef við byggjum einhvern tímann borgarlínu, sem ég vona svo sannarlega að verði, þá verður hún alls ekki fjárfesting sem mun geta borið sig að fullu á einkaforsendum. Ég hef skoðað sögu þannig fjárfestinga nógu vel til að vita það. Ég er engu að síður mjög hlynntur slíkri fjárfestingu af þeim ástæðum að ég styð almenningssamgöngur og þær þarf að styðja styð ég.

Það eru hins vegar vissulega til almenningssamgöngur sem hefur ekki þurft að styrkja, t.d. langferðaflutningar sums staðar í Evrópu og langferðaflutningar í Bandaríkjunum, sem ég tel sem almenningssamgöngur.

En mig langar örlítið að forvitnast um afstöðu hv. þingmanns vegna þeirra orða sem hann lét falla um lestarsamgöngur á Íslandi sem einhvers konar framtíðarmúsík. Ef við lesum upp lista yfir lönd sem hafa tekið upp léttlestakerfi á undanförnum fimm árum er að finna borgir eins og Bergen, Angers, Reims, Murcia, Brest, Dijon, Le Havre, Tours, Besançon, Edinborg, Palermo og Olsztyn í Póllandi. Það er þróun í þessa átt í Evrópu og hún er í þá veru að smærri svæði eru að taka upp léttlestakerfi. Ef við tökum t.d. Dijon, sem er þekkt fyrir ágætissinnep, búa á því svæða 150 þús. manns, það er því ekki svo fjarri lagi að bera þá borg saman við höfuðborgarsvæðið.

Mig langar forvitnast um bölsýni hv. þingmanns hvað varðar lestarsamgöngur á Íslandi.