146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:04]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Lýtur þetta frumvarp að einu ákvæði þeirra laga sem varðar kosningaaldur. Lagt er til að kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar eigi hver sá íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 16 ára aldri þegar kosningin fer fram og á lögheimili í sveitarfélagi.

Í stuttu máli sagt er lagt til að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum að þessu sinni í 16 ár. Flutningsmenn að þessu máli, auk þeirrar sem hér stendur, eru hv. þingmenn Ásta Guðrún Helgadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Logi Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Pawel Bartoszek, Nichole Leigh Mosty, Smári McCarthy, Vilhjálmur Árnason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Teitur Björn Einarsson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Björn Leví Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Viktor Orri Valgarðsson.

Frumvarp þetta byggir á frumvörpum sem áður hafa verið lögð fram sem þó gengu lengra. Áður hafa þingmál verið lögð fram um að lækka almennan kosningaaldur niður í 16 ára. Þar ber að nefna tvö mál þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem voru þingsályktunartillaga Hlyns Hallssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur á 133. löggjafarþingi og svo frumvarp Árna Þórs Sigurðssonar á 141. löggjafarþingi. Þá lögðu þingmennirnir Árni Páll Árnason, Kristján L. Möller og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir auk mín fram frumvarp þessa efnis á 144. löggjafarþingi. Það varð ekki útrætt og því endurflutt af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, þ.e. mér, og Árna Páli Árnasyni á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.

Þessi fyrri mál hafa öll miðað að því að lækka kosningaaldur almennt úr 18 árum í 16 ár. Slík breyting krefst þess að gerðar séu breytingar á stjórnarskrá Íslands. Hér er í raun lagt til talsvert smærra skref með því að breyta kosningaaldri í kosningum til sveitarstjórna. Það krefst einungis einfaldrar lagabreytingar. Verði frumvarpið samþykkt leggja flutningsmenn áherslu á það eftir sem áður að stefnt sé að því að stíga frekari skref í sömu átt á næstu misserum, hvort sem það verður gert sem hluti af vinnu við endurskoðun stjórnarskrár og kosningalaga sem boðuð hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili eða með sjálfstæðu þingmáli, en mikilvægt er að ná samstöðu um þær breytingar og helst fyrir næstu þingkosningar.

Af hverju er þetta mál lagt fram? Ég neita því ekki að ávallt þegar þessi mál ber á góma, þ.e. lækkun kosningaaldurs, verð ég vör við heilmikil viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Mörgum þykir óþarfi að vera að víkka kosningaaldurinn út með þessum hætti. Einnig berast iðulega þau viðbrögð eða þær athugasemdir að það sé mjög óheppilegt að hafa þetta ekki í fullu samræmi, þ.e. að það sé eitt sem gerist við 16 ára aldur og annað við 18 ára og hið þriðja við 20 ára og þetta sé allt mjög flókið, sem ég held raunar ekki að það sé. Ég held að mannshugurinn sé svo stórkostlegur að þetta sé ekkert sérstaklega flókið í fyrsta lagi. Í öðru lagi vil ég segja að það að lækka kosningaaldur úr 18 ára niður í 16 ára snýst ekki um að breyta 16 ára börnum í fullorðna. Það snýst um að þessi hópur barna eða ungmenna fái rödd til að hafa áhrif á það sem gerist í þeirra nærsamfélagi, sem er auðvitað sveitarstjórnirnar. Ég myndi segja að eiginlega þekki fáir þau mál betur á eigin skinni en einmitt sá aldurshópur sem nýlokið hefur skólagöngu í gegnum leikskóla og grunnskóla og þekkir mætavel frístundastarfið á vegum sveitarfélagsins. Þessir málaflokkar saman eru í raun og veru meginhluti af starfi sveitarfélaga þegar við skoðum efnahagsreikninginn og fjárhagstölurnar. Hví ekki að leyfa þeim hópi að fá rödd?

Við erum ekki að segja þessum hópi endilega að verða fullorðinn. Við erum aðeins að segja að við ætlum að hlusta á hann og gefa honum tækifæri til að hafa áhrif.

Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram í upphafi því að mér finnst stundum eins og fólk rugli því saman að það þurfi endilega að teljast vera fullorðinn einstaklingur til þess að taka þátt í stjórnmálum. Meginrökin fyrir því að þetta mál er lagt fram eru að því er ætlað að styðja við lýðræðislega þátttöku ungmenna, auka tækifæri þeirra til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Ef frumvarpið verður að lögum munu aldursmörk kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum 2018 verða við 16 ára aldur í stað 18 ára sem þýðir að 9 þús. manns til viðbótar fá tækifæri til að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi, sem ekki njóta þeirra grundvallarréttinda að óbreyttum lögum. Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess að dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna er víða staðreynd og veldur áhyggjum af framtíð lýðræðisins. Það er eitthvað sem ég held að allir hér inni deili áhyggjum af, þ.e. hvernig við getum virkjað ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum, því að stjórnmálin eru undirstöðuvettvangur lýðræðislegs samfélags þar sem við tökum ákvarðanir, setjum samfélaginu leikreglur, höfum eftirlit með valdhöfum. Það skiptir máli að sem flestir taki þátt í því að hafa áhrif á hvernig sá vettvangur mótast.

Skoðum stöðuna á Íslandi. Kosningaaldri var síðast breytt hér 1984 þegar hann var lækkaður úr 20 árum í 18 ár, merkilegt hvað er stutt síðan. Það gerðist í samvinnu allra flokka á Alþingi. Ég vil nota tækifærið og fagna því sérstaklega að á þessu máli eru flutningsmenn úr sex flokkum af sjö á Alþingi. Ég vonast til þess að það geti orðið vísir að samstöðu um slíka lækkun.

Þá hafði fyrsta ríkið til að taka upp 18 ára kosningaaldur verið Tékkóslóvakía árið 1946 en 1970 urðu Bretland og Þýskaland fyrstu ríkin í Vestur-Evrópu til að lækka kosningaaldur í 18 ár.

Ég nefndi dvínandi þátttöku. Niðurstöður rannsókna benda til þess að kosningaþátttaka ungs fólks hafi minnkað allt frá því að íslenskar kosningarannsóknir hófust árið 1983. Niðurstöður Hagstofu Íslands eftir þrennar undangengnar kosningar, þ.e. sveitarstjórnarkosningar 2014, forsetakjör 2016 og alþingiskosningar 2016, staðfesta það sem kosningarannsóknin hafði dregið fram, þ.e. að kosningaþátttaka ungs fólks er minni en meðal eldri kjósenda. Þetta var sérstaklega skýrt í sveitarstjórnarkosningum 2014 þar sem kosningaþátttaka fólks undir þrítugu var 47,5% en meðalkjörsókn 66,5%. Þetta er alveg gríðarlegur munur á þátttöku þegar kemur að þessum kosningum. Meðal annars þess vegna var ráðist í mjög mikilvæga vitundarvakningu fyrir síðustu alþingiskosningar þar sem var ráðist í skuggakosningar í ýmsum framhaldsskólum, sem var alveg sérlega skemmtilegt verkefni og gaman að skoða muninn og líkindin milli niðurstaðna skuggakosninga og sjálfra þingkosninganna. Í aðdraganda þessara kosninga voru haldnir fundir í framhaldsskólum sem margir hverjir voru meðal skemmtilegustu funda sem haldnir voru í þeirri kosningabaráttu. Vonandi er þetta ein af ástæðum þess að kosningaþátttaka ungs fólks fór upp á við frá sveitarstjórnarkosningum 2014 í þingkosningum 2016. En þetta er allt skýrt hér í miklu línuriti á bls. 4.

Þetta skiptir að sjálfsögðu máli og er eitt af því sem við höfum rætt talsvert. Til að mynda við undirbúning þessa máls fór ég ásamt tveimur öðrum þingmönnum Vinstri grænna, þeim hv. þingmönnum Andrési Inga Jónssyni og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, og við hittum nokkra fulltrúa ungmennaráða til að heyra þeirra sýn, frá ólíkum ungmennaráðum, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema o.fl., á þessi mál. Þeirra sýn var sú að það skipti vissulega máli að ungt fólk fengi áhrif en líka að aukin áhersla væri lögð á lýðræðismenntun í skólum. Það hefur verið gert að miklu leyti frá því að ný námskrá var gefin út 2011 þar sem lýðræði og mannréttindi eru ein af sex grunnstoðum. Skólarnir hafa verið að útfæra þá stoð með ýmsum hætti. Það eru mjög áhugaverð verkefni víðast hvar í bæði leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum þar sem skólarnir fara mjög ólíkar leiðir í því að stuðla að aukinni vitund um lýðræðið og gera það ekki endilega með því að hafa kennslubækur á borðum um hvað lýðræði sé heldur að stuðla að lýðræðislegum vinnubrögðum. Það eru t.d. gríðarlega áhugaverð verkefni á leikskólastigi sem snúast um nákvæmlega það að ala börnin upp í lýðræðislegum vinnubrögðum, að taka umræður. Þótt viðfangsefnin séu ekki endilega hápólitísk á hverjum tíma skiptir það máli að venja sig á lýðræðisleg vinnubrögð. Það er líklega ástæðan fyrir því að yngsti sonur minn er stöðugt að biðja um fjölskyldufundi til að ræða ýmis mál og vill taka þar lýðræðislegar ákvarðanir þar sem börnin taka iðulega mjög skýra afstöðu gegn foreldrunum. En þetta hefst allt með rökræðunni. Við vitum kannski ekki hvar það endar.

En lýðræðismenntunarverkefni skipta máli. Ég vil nefna Grunnskólann á Ísafirði sem hefur fengið verðlaun fyrir verkefni á því sviði. Við höfum séð framhaldsskólana taka þetta t.d. í gegnum nemendafélög. Ég nefni Hornafjörð sem dæmi þar sem er verið að vinna í því að lýðræðisleg vinnubrögð séu líka höfð í heiðri í uppbyggingu félagsstarfs. Þá getum við líka spurt okkur hvort það fari ekki saman um leið og við stuðlum að auknum þroska og aukinni menntun á sviði lýðræðis að gefa þeim hópi tæki til þess að beita þeirri menntun, þeim þroska, til að hafa áhrif.

Ég vil nefna að þessi þróun, ef við tökum þetta skref, væri ekki séríslensk. Austurríki var fyrsta landið til að stíga það skref að lækka kosningaaldur í 16 ár í öllum kosningum árið 2007 og kjörgengisaldurinn í 18 ár nema í forsetakosningum þar sem hann er 35 ár. Skotland sté þetta skref í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Skotlands sem var gríðarlega mikil þátttaka í, ekki aðeins út af lækkun kosningaaldurs. Hún þótti takast mjög vel með tilliti til lýðræðislegra sjónarmiða. Skoska þingið samþykkti svo með stórum meiri hluta árið 2015 að stíga skrefið til fulls og lækka kosningaaldur í þing- og sveitarstjórnarkosningum úr 18 ára í 16 ára.

Í greinargerðinni eru talin upp ýmis fleiri ríki sem hafa verið að stíga einhver skref, mjög mörg ríki hafa stigið það skref að byrja á sveitarstjórnarstiginu. Ég nefni Noreg þar sem þessu aldurstakmarki var komið á í tilraunaskyni á sínum tíma. Eistland og Malta hafa stigið það skref að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum og a.m.k. á Möltu er mikil umræða um hvort ekki sé rétt að lækka hann líka í þingkosningum. Kosningaaldur er 16 ár í sveitarstjórnarkosningum í tíu af þýsku sambandsríkjunum. Þar reið Niedersachsen á vaðið árið 1996. Síðan vil ég nefna að þing Evrópuráðsins hefur samþykkt ályktun þessa efnis, gerði það árið 2011, þar sem þingið beinir því til allra aðildarríkja sinna að fara yfir þetta og skoða slíka tilhögun.

Ég vil nefna það að þessar raddir heyrast líka frá unga fólkinu sjálfu. Ég nefndi ungmennaráðin áðan og Landssamband æskulýðsfélaga og fleiri sjónarmið. Þannig hefur ungmennaráð UMFÍ ályktað að rétt væri að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ár. LÆ, sem er Landssamband æskulýðsfélaga, hefur ályktað með sama hætti. Eins og ég nefndi áðan áttum við fund við stjórn sambands æskulýðsfélaga, ungmennaráð UNICEF og ráðgjafarhóp umboðsmanns barna. Það sem mér fannst einmitt renna stoðum undir að þetta væri rétt skref var sú ábyrga umræða sem þeir fulltrúar áttu í við okkur þingmenn þar sem þeir sögðu: Þetta er gott og blessað en það þarf líka að sinna almennri umræðu um lýðræði í skólum. Það þarf að styrkja þann þátt í skólastarfinu. Þau virkilega settu þau mál á dagskrá að þetta geti verið jákvætt skref en það þurfi líka margt annað að fylgja.

Ég ætla svo sem ekki að halda mikið lengri ræðu um þessi mál en fagna því mjög að fá tækifæri til að mæla fyrir málinu, að svo breið samstaða hafi náðst um meðflutning á þessu máli og er afar spennt að sjá þegar málið fer svo væntanlega til hv. allsherjar- og menntamálanefndar hvaða viðbrögð það fær. Eitt af því sem sömu fulltrúar sem ég nefndi vísuðu í í umræðum sínum við okkur er að ungt fólk hefur líka mikinn áhuga á að koma meira að því að veita umsagnir til að mynda um mál sem eru lögð fyrir á þingi. Það er eitt af því sem við sem þingmenn ættum að velta fyrir okkur. Það eru oft sömu aðilarnir kallaðir til þegar veita á umsagnir um mál, hugsanlega af því að við störfum inni í einhverjum ákveðnum römmum og það liggur ekki augljóslega fyrir hvern á að kalla til. En ungt fólk hefur líka skoðanir á málum sem varða ekki sérstaklega ungt fólk. Það er mjög oft besta reynslan fyrir þingmenn sem er att út á forarsvaðið í aðdraganda kosninga að fara á fundi með ungu fólki og byrja að ræða þau mál sem þeir telja að unga fólkið vilji ræða en komast yfirleitt að því að það eru allt önnur mál sem unga fólkið vill ræða. Það er iðulega reynsla mín af því að mæta á fundi með ungu fólki að það hefur áhuga á einhverju allt öðru en ég held að það hafi áhuga á. Það segir kannski eitthvað um mig, en kannski segir það eitthvað um fleiri hv. þingmenn sem hér glotta mjög yfir þessu. Sum okkar eru auðvitað í betri tengslum við sitt innra barn, ég átta mig alveg á því.

En það sem skiptir máli er að við veltum því fyrir okkur hvaða skoðanir þetta unga fólk hefur. Ég get tekið sem dæmi umhverfismálin, loftslagsmálin, sem varða þetta unga fólk kannski miklu meira en okkur sem eldri erum og hvernig við tökum á því. Samgöngumálin, sem voru að hluta til til umræðu áðan, hvernig varða þau þetta unga fólk og framtíð þess og hvaða framtíðarsýn vill þetta unga fólk sjá í samgöngum? Er það kannski einhver allt önnur framtíð? Ungt fólk sem hefur komið að stefnumótun t.d. úti á landi á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga bendir á allt aðra þætti en þeir sem eldri eru. Það bendir á þætti sem eru því mikilvægir fyrir framtíðina. Mér er minnisstætt að hafa séð slíkar niðurstöður frá málþingi sem landshlutasamtök sveitarfélaga á Austurlandi héldu þar sem unga fólkið kom sérstaklega að og var með allt aðra sýn á það hvernig það vildi sjá landshlutann þróast og hvað skipti það máli í þróun þessa svæðis fram í tímann.

Það skiptir máli að við ræðum ekki aðeins kosningaaldurinn heldur líka hvernig við getum leitað til yngri hópa um stefnumótun, um pólitíska stefnu, og sinnum því hlutverki sem við eigum að sinna samkvæmt lögum og reglum með að standa vel að lýðræðismenntun í samfélaginu, ekki einungis með því að fræða fólk um hinar lýðræðislegu stofnanir samfélagsins, sem er auðvitað ekki vanþörf á, heldur líka um það hvernig eigi að vinna og starfa með lýðræðislegum hætti.

Ég tel að þetta geti verið mjög gott mál til þess að efla áhuga ungs fólk á kosningum og stjórnmálaþátttöku. Ég held að í því felist ákveðið tækifæri. Ég held að skrefið sé í raun og veru mjög varfærið, að miða við sveitarstjórnarkosningar. Þar með værum við ekki að ríða á vaðið, við værum að fylgja í fótspor ýmissa annarra Evrópuþjóða en um leið vera ansi framarlega á merinni í að stíga mjög marktæk og ákveðin skref til þess að efla þátttöku ungs fólks í þjóðfélagsmálum. Það er eins með þennan hóp og aðra að það eru ýmsir hópar sem gleymast. Ég man eftir því að afi minn var alltaf mjög ósáttur við að skoðanakannanir miðuðust við þá sem voru undir 75 ára aldri. Hann sagði: Þetta fólk veit ekki hvað okkur finnst sem erum eldri. En þetta er það sem við hljótum alltaf að vera að hugsa um, hvernig við getum gert þetta samfélag þannig að það taki utan um sem flesta hópa og tryggt að sem flestar raddir heyrist. Þetta gæti verið mjög gott skref í þá átt.

Frú forseti. Ég legg til að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Auðvitað er það von mín að þetta mál nái fram að ganga, ef ekki á þessu þingi þá snemma á því næsta. Það gæti verið frábært tækifæri í sveitarstjórnarkosningunum 2018.