146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:22]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni kærlega fyrir. Ég get að mestu tekið undir meginatriði þessa frumvarps, eða réttara sagt: Ég skrifa undir þau markmið sem menn eru að reyna að ná með þessu frumvarpi, að virkja ungt fólk, vekja áhuga þess á stjórnmálum, þjóðmálum, á umhverfi sínu o.s.frv. En svona til gamans: 16 ára er maður kominn með kosningarrétt til sveitarstjórna, 17 fær maður bílpróf, 18 fær maður sjálfræði og síðan kosningarrétt til Alþingis. Svo fær maður ekkert þegar maður er 19 en fær síðan að kaupa áfengi þegar maður verður tvítugur. Það er spurning hvað við getum gert þarna á nítjánda árinu.

En ég heyri að hv. framsögumaður er frekar varkár og telur að rétt sé að stíga þetta skref fyrst í sveitarstjórnum og sjá til hvernig til tekst og velta síðan fyrir sér alþingiskosningum. En ég er hins vegar ekki viss um að það sé alveg rétt. Látum það liggja á milli hluta. En mér finnst það fingurbrjótur að sá einstaklingur sem hefur atkvæðisrétt til sveitarstjórna sé ekki sjálfráða. Ég held að það sé þá að minnsta kosti vert að huga að því að breyta sjálfræðisaldrinum. Ég velti líka fyrir mér: Hafa hv. flutningsmenn ekki velt fyrir sér öðrum kosningarrétti? Sveitarfélög efna til íbúakosninga. Samkvæmt þessu frumvarpi, skilji ég það rétt, hafa 16 ára, eða þeir sem yngri eru en 18, ekki atkvæðisrétt í íbúakosningum eða í (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslum yfir höfuð. Það er eiginlega spurning hvort þetta frumvarp gangi nægilega langt.