146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[22:25]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann stendur vel undir viðurnefni sínu sem róttæklingur hér í þingsal, hann vill ganga lengra. Eins og ég rakti í upphafi máls míns hafa verið lögð fram frumvörp um að lækka þennan aldur almennt, en það kallar á breytingu á stjórnarskrá. Og okkur hefur nú reynst erfitt að ná fram breytingum á stjórnarskrá, meira að segja hvað varðar önnur mál sem við ræddum hér fyrr í kvöld. Þess vegna er það skref sem lagt er til varfærið.

Mér finnst hins vegar mjög góð ábending hjá hv. þingmanni hvað varðar íbúakosningar í sveitarfélögum sem gert er ráð fyrir í sveitarstjórnarkosningum. Þingnefndin gæti tekið það fyrir. Þá væri mjög eðlilegt að sá réttur fylgdi kosningarrétti í sveitarstjórnarkosningum, að taka þátt í íbúakosningum innan sveitarfélaga. Ég ímynda mér hins vegar að réttur til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ætti að fylgja þingaldri. En það er samt sjálfstæð ákvörðun, samanber skoska dæmið sem ég nefndi áðan, þar sem ákveðið var að lækka kosningaaldur í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og í framhaldinu tekin ákvörðun um að lækka kosningaaldur almennt til þings og sveitarstjórna.

Hv. þingmaður nefndi ósamræmið hér, sem ég kom einnig inn á. Það er reyndar svolítið leiðinlegt að ekkert gerist þegar maður verður nítján ára, ég er alveg sammála því. Það má nú finna upp á einhverju varðandi það. En sjálfræði eða ekki sjálfræði: Alþingi tók þá ákvörðun að samræma lögræðis- og sjálfræðisaldur á sínum tíma þannig að börn yrðu börn til átján ára aldurs. Mjög margt gott hefur fylgt þeirri ákvörðun, vil ég nú segja, þó að ég persónulega hafi verið mjög efins um það á sínum tíma þar sem ég var yngri þá. En ég hef séð það í skólastarfi í landinu að þetta hefur skipt miklu máli. Það er mjög margt gott sem komið hefur út úr því hvað varðar forvarnir og annað slíkt. Þess vegna spyr ég: Þarf þetta að fylgjast að? Þarf maður (Forseti hringir.) endilega að vera fullorðinn til að taka þátt í kosningum? Hefur maður ekki jafn mikilvæga rödd fyrir því?