146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[23:00]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég er einn þeirra sem flytja þetta mál. Ég ætla að leggja það á borðið að ég bar kannski ekki hitann og þungann af samningu þeirrar greinargerðar sem liggur fyrir. Hún var samin af öðru fólki en ég tek að sjálfsögðu undir það sem þar stendur, enda er þetta frumvarp sem við höfum lagt fram áður í einhverri mynd en hefur ekki hlotið framgöngu. Ég styð þetta mál vegna þess að ég styð þá réttinda- og ábyrgðaraukningu sem er verið að leggja til. Ég er sjálfur flutningsmaður ámóta máls sem útvíkkar beinan og óbeinan kosningarrétt til sveitarstjórna handa fólki sem ekki er með íslenskan ríkisborgararétt, útvíkkar þann rétt frá því sem nú er.

Ég styð þá þróun að efla vald og réttindi ungs fólks. Þróunin hefur raunar ekki verið öll á þá leið á undanförnum árum. Lítum á ýmis önnur mál, t.d. sjálfræðisaldur, sem var hærri fyrir nokkrum áratugum síðan. Sundfararaldur er einnig orðinn hærri en hann var fyrir nokkrum árum síðan, þ.e. börn þurfa að vera eldri þegar þau fara í sund. Það var reynt að hækka bílfrófsaldurinn upp í 18 ár, þótt það hafi ekki gengið eftir. Ýmis þróun hefur frekar verið í þá átt að minnka réttindi.

Það má hafa ýmsar skoðanir á þeim breytingum sem hafa verið gerðar, hvort sem talað er um tóbakskaupaaldur eða aldurinn sem menn mega fara í sund einir síns liðs, hvort þær séu góðar eða vondar. Það er án nokkurs vafa gott að vera barn á Íslandi og kannski betra en var einu sinni, en ég hef á tilfinningunni að börn og ungmenni ráði tíma sínum síður. Barn eða ung manneskja vaknar á daginn og hefur örlítið minni stjórn á því hvernig hún ætlar að haga degi sínum en var einu sinni. Það er m.a. út af þeim atriðum sem ég nefndi. Svo er það líka út af því að hlutir eins og skipulagt frístundastarf tekur mjög stóran hluta af degi barna og ungmenna.

Menn velta upp ýmsu ósamræmi þegar kemur að aldurstakmarki sem kann að skapast. Hér leggjum við t.d. til að frístundastyrkir ýmissa sveitarfélaga, sem oftast eru til 18 ára aldurs, verði lagðir í hendur þess fólks sem getur fengið frístundastyrki, þ.e. að taka einhverja ákvörðun um þá. Mér finnst það á einhvern hátt heillandi þróun. Mér finnst heillandi að það fólk sem hlutirnir varða, þótt ekki séu nema elstu tveir árgangarnir, geti haft eitthvað um það að segja hvort það vilji virkilega vera í öllu þessu frístundastarfi eða var þetta ákvörðun sem var tekin einungis til að létta á deginum fyrir foreldra eða? Svo hafa menn ólíkar skoðanir á því. Auðvitað hafa börn og ungmenni ólíkar skoðanir á öllum málum.

En þetta eru dæmi um mál sem væri gaman að fá skemmtilegri vídd á inn í umræðuna við það að þessi réttindaaukning komi hér inn.

Við höfum stundum í umræðunni talað um það þannig að með þessari breytingu munum við þurfa að hlusta betur á einhvern annan hóp. En auðvitað er eitt sem fylgir þessu sem er líka jákvætt skref og við getum ekki útilokað að verði raunin einhvern tíma: Fólk undir 18 ára aldri getur, ef ég skil þetta rétt, fengið beina kosningu til sveitarstjórna. Það væri heillandi og athyglisvert. Ég get nefnt að á þingi er yngsta manneskjan sem hefur tekið sæti 21 árs og 100 daga gömul. Það var hv. þm. Bjarni Halldór Janusson frá Viðreisn sem gerði það fyrir nokkrum dögum. Þarna er stórt gat, ef svo má að orði komast. Það er hópur, þrír árgangar í það minnsta, sem kýs okkur, er hluti af þeim samfélagslega sáttmála að veita einhverju fólki umboð til að ákveða hvað sé leyft og hvað bannað, sem hefur tekið ákvörðun um að hluti þessa fólks megi drekka áfengi og einhver hluti ekki. Fyrstu þrír árgangarnir af þeim hópi hafa aldrei átt fulltrúa á þingi. Ég myndi vilja að það breyttist, að það væri einhvern tíma einhver sem væri enn yngri og þetta met yrði fljótlega slegið. Mér fyndist það jákvæð þróun.

Með því að færa aldurinn neðar aukast líkurnar á því að það gerist. Menn hafa stundum velt fyrir sér hver sé ástæðan fyrir hinu og þessu, að þátttakan sé ekki meiri en raun ber vitni hjá yngra fólki. Hugsanlega skortir þau fleiri fyrirmyndir á svipuðum aldri og þau til að kjósa og hafa virkilega trú á að einhver sé talsmaður fyrir hugsjónir þeirra.

Ég bind ákveðnar vonir, rétt eins og aðrir hv. þingmenn, við að þetta geti haft ákveðnar jákvæðar breytingar fyrir pólitíkina, þótt eflaust muni líka koma á daginn að margir verða ekki endilega himinlifandi með þær breytingar, vegna þess að ef kominn er markhópur inn í allan menntaskólann fyrir stjórnmálaflokkana munu þeir þurfa, og eiga þá, að sækja inn í þann markhóp með boðskap sinn sem er pólitískur boðskapur. Það hafa stundum heyrst þau sjónarmið að menn hafi ekki endilega verið sáttir við það þegar menn hafa farið inn í skólastofnun með einhvers konar pólitískan boðskap. Ég er alls ekkert feiminn við það. Mér finnst pólitík alls ekki ljótur hlutur, ekki hlutur sem eigi að fela fyrir ungu fólki, hvort sem er flokkspólitík eða annars konar pólitík. En það gæti verið að einhverjum þætti svo þegar á reyndi.

Eins og ég segi, og ég ætla ekki að vera langorður að sinni, styð ég þetta frumvarp, enda er ég flutningsmaður þess. Ég er fulltrúi flutnings að öðru frumvarpi sem er ámóta því að það tekur á kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum. Mér var bent á að vísa því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og velti fyrir mér hvort það sé einhver ástæða fyrir því að menn fari með þetta hingað og þangað. Fari það til allsherjar- og menntamálanefndar mun ég taka því fagnandi að takast á við frumvarpið þar. Að öðru leyti hef ég lokið máli mínu.