146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[23:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég er ekki endilega að spyrja þingmanninn eða veita andsvar heldur aðallega að þakka honum fyrir að minna okkur á að þó að við höfum frá árinu 1984 haft 18 ár sem kosningaaldur, og þar með hafi 18 ára einstaklingar verið kjörgengir inn í þetta hús, gerðist það fyrst í síðustu viku að einhver náði að komast hingað inn 21 árs. Þarna eru þrjú ár sem við erum ekki að fullnýta. Þetta virðist vera eitthvað sem er innbyggt í öll þessi kerfi. Þrátt fyrir að við séum til dæmis með 35 ára mörk á að verða forseti er núverandi forseti sá yngsti í Íslandssögunni, 48 ára.

Ég hef engar stórar áhyggjur af að í sveitarstjórnum víða um land fyllist allt af 16 ára fulltrúum ef þessi lög ganga í gegn. En ég held að það verði í það minnsta áhugavert að toga meðalaldurinn hressilega niður. Það hefur oft verið þannig að ungmenni í sveitarstjórnum hafa leitt ákveðnar umræðubyltingar. Var það ekki Fönk-listinn á Ísafirði, sem var aðallega rekinn af fólki rétt um 18 ára, sem náði að breyta pólitísku landslagi þar til hins betra?

Ég þakka þingmanninum stuðning við málið og það að vera líkt og ég almennur fylgismaður þess að kosningarrétturinn eigi að vera eins opinn og hægt er.