146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[23:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og langaði því rétt aðeins að taka til máls og styðja þetta og fagna, ekki síst þeirri jákvæðni sem mér hefur þótt gæta í garð málsins í máli margra hv. þingmanna. Sjálfur er ég jafnvel þeirrar skoðunar að það ætti að ganga svo langt að leyfa öllum að kjósa. Ég hef velt því mikið fyrir mér. Ég á afmæli seint á árinu og mér hefur alltaf þótt ósanngjarnt að miðað sé við afmælisdag og ég hafi þurft að horfa á eftir kollegum mínum, félögum og vinum, fara og gera eitthvað sem mátti gera þegar ákveðnum aldri hafði verið náð, sérstaklega þar sem ég var ári á undan í skóla, en ég kom aðallega upp til að segja ykkur að ég hefði verið ári á undan í skóla. Mér þótti þetta oft gríðarlega ósanngjarnt.

Ég held að það að taka þátt í samfélaginu, móta það hvernig við viljum sjá framtíðina, eigi ekki að einskorðast við 18 ára aldur. Ég er ekki einu sinni viss um að það eigi að eigi að einskorðast við 16 ára aldur en fagna því heils hugar að við séum að taka ákveðin skref í þá átt. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um rökin á bak við þetta. Greinargerðin sem fylgir frumvarpinu er mjög vel úr garði gerð og bent er á ótal dæmi þar sem þetta hefur verið gert með góðum árangri. Bent er á hvatningu margra alþjóðlegra stofnana, ungmennaráða og félaga og í raun þarf ekkert að velkjast í vafa um að þetta sé það rétta að gera. Við viljum vera eins og Niedersachsen í þýska sambandslýðveldinu, ég treysti því að hæstv. heilbrigðisráðherra og þýðverskur frændi minn, Óttarr Proppé, styðji við þetta mál með mér.