146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

190. mál
[23:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki jafn hrifinn af þessu frumvarpi og flutningsmaðurinn, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Ekki það að ég vilji ekki fela yngra fólki ábyrgð heldur finnst mér vera svo mikið stílbrot í frumvarpinu. Réttindi og ábyrgð fara svolítið saman. Hér er verið að lækka kosningaaldur en þetta sama fólk sem má kjósa og hafa áhrif má ekki bjóða sig fram. Það getur ekki orðið hluti af sveitarstjórn. Það er auðvitað bara stílbrot og mér finnst það ekki ganga upp.

Ég hef verið talsmaður þess og geti fallist á að leyfa fólki að kjósa 16 ára. En ég vil þá að ábyrgðin sé 16 ára, vegna þess að við teljum að í atkvæðisréttinum felist mikil ábyrgð. Ef 16 ára getur axlað þá ábyrgð tekur hann líka ábyrgð á lífi sínu. Þess vegna myndi ég sjálfur breyta þessu frumvarpi og hafa 16 ár, hafa kjörgengið til sveitarstjórna 16 ára og sjálfræðisaldur 16 ár. Menn hafa verið að rugla saman að fólk geti gert eitt og annað, fengið mótorhjóla- eða skellinöðrupróf og eitthvað svona 15 ára. En auðvitað fær barnið ekkert skellinöðrupróf ef forsjáraðilinn segir: Nei, þú færð það ekki. Skellinöðrupróf skiptir engu máli í þessu. Forsjáin er hjá foreldrunum. Barnið fer ekkert í skellinöðrupróf nema ef foreldrarnir leyfa. Barnið fer heldur ekki í sund nema ef foreldrarnir leyfa. Barnið gerir ekki þetta og hitt án leyfi foreldra.

Er hv. þingmaður ekki bara sammála því að við lögum kjörgengið (Forseti hringir.) og sjálfræðisaldurinn í leiðinni?