146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

331. mál
[23:25]
Horfa

Flm. (Einar Brynjólfsson) (P):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar þess efnis að forseta Alþingis verði falið að skipa rannsóknarnefnd skipaða þremur aðilum sem skuli rannsaka fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

Flutningsmenn tillögunnar eru auk þess sem hér stendur hv. þm. Oktavía Hrund Jónsdóttir, Halldóra Mogensen, Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Ingiberg Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson.

Frú forseti. Öldum saman hefur íslenskur almúgi kvartað undan spillingu þeirra sem skipað hafa efstu lög þjóðfélagsins. Lengst af tengdust þessar umkvartanir embættismönnum á borð við presta og sýslumenn, en svo kom að því, þegar heimurinn opnaðist Íslendingum, ekki hvað síst vegna margháttaðra þjóðfélagsbreytinga á 20. öld, að umkvörtunarefnin breyttust eða beindust að öðru. Hér urðu til gífurlegir fjármunir vegna hins svokallaða síldarævintýris, Marshall-aðstoðar og svo mætti lengi telja. Þá fóru spjótin að berast að þeim sem stunduðu viðskipti, t.d. heildsölum sem voru grunaðir um að skjóta fjármunum undan.

Um síðustu aldamót voru bankar í eigu almennings einkavæddir með skelfilegum afleiðingum fyrir eigendur þeirra, þ.e. almenning. Þessar afleiðingar urðu til þess að hér upphófst hrina rannsókna á ýmsum þeim málum sem misfarist höfðu svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég hafði nú hugsað mér, virðulegur forseti, að koma með allar þessar skýrslur hér í pontu en hætti við af tveimur ástæðum. Annars vegar er ég bakveikur eymingi og hins vegar er ekkert pláss, ekkert borð til að leggja þær á, ekkert frálagsborð sem ég hefði getað geymt þær á máli mínu til stuðnings. Þetta eru, sýnist mér, sex meginrannsóknir sem um er að ræða.

Sú fyrsta og þekktust er náttúrlega sú sem bar titilinn Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. Var í níu bindum sem er hvert öðru skemmtilegra.

Annað rit í þessari röð var skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna og gaf hún fyrra nefndarritinu lítið eftir. Þriðja í röðinni var skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

Svo má segja að fjórða skýrslan — eða hvernig eigum við að orða það, það var ekki eiginleg skýrsla sem slík — hafi verið hin stórmerkilegu Panama-skjöl sem ég nefni hér í þessari tímaröð. Vissulega var það ekki skýrsla eða uppgjör á því sem misfarist hafði og því sem hafði verið gert rangt heldur einfaldlega sönnunargögn í stórum bunkum, fyrst og fremst rafrænum.

Fimmta ritið í þessari röð var ágætt rit sem reyndar var aðeins legið á, það er hið ágæta rit Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, könnun starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins á fjármagnsflutningum og eignaumsýslu á lágskattasvæðum. Um þá skýrslu stóð mikill styr.

Hér berast í þingsal 50 sm eða þar um bil af rannsóknargögnum og skýrslum. Það er ágætt. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þá íþróttamannslegu framkomu sem felst í því að bera þetta upp fyrir veikan eymingja.

Sjötta ritið og það nýjasta heitir Þátttaka Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003. Það fengum við í hendur fyrir rúmum mánuði ef ég man rétt.

Þessar skýrslur sýna í raun allar, með mismunandi hætti þó, fram á siðrof, mistök, vanhæfi, vangetu og útbreidda spillingu á ýmsum sviðum, ekki hvað síst í pólitík og viðskiptum.

Þá er ég kominn að því sem ég vona að marki upphaf næsta skrefs til að upplýsa almenning um einn anga fjármálalífsins sem sveipaður hefur verið hulu, það sem ég vonast til að verði næsta skref í því að upplýsa um mál sem misfórust hér síðustu árin og misserin. Ályktunin hljómar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir, að gerð verði rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

Rannsóknin verði falin þriggja manna nefnd sem forseti Alþingis skipar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um rannsóknarnefndir. Rannsóknarnefndin leggi mat á hvernig til hafi tekist þegar fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var komið á fót, m.a. framkvæmd hennar og efnahagsleg áhrif. Í þessu skyni geri nefndin grein fyrir:

a. fjármagninu sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni,

b. hvaðan fjármagnið kom,

c. hvaða einstaklingar voru skráðir fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins eða hvaða félög og eignarhaldi þeirra,

d. hvernig fénu sem fært var inn til landsins var varið, þ.e. til hvaða fjárfestinga það var notað og hvaða áhrif þær fjárfestingar hafa haft á íslenskt efnahagslíf,

e. hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna þessa og þá hversu stórt umfang slíks taps hafi verið.

Nefndin skili niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. janúar 2018.“

Í greinargerð segir:

„Þessi tillaga til þingsályktunar er lögð fram á grundvelli 1. gr. laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, en þar segir:

„Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd á vegum Alþingis ef þingið samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning.“

Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að varpa skýru ljósi á allar þær fjármagnstilfærslur sem voru gerðar fyrir tilstilli fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands.“

Um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands segir:

„Í kynningu Seðlabanka Íslands á fjárfestingarleiðinni, frá 18. nóvember 2011, segir m.a.:

„Á komandi mánuðum mun Seðlabanki Íslands standa fyrir gjaldeyrisútboðum þar sem bankinn mun kaupa erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar, enda sé fjárfestingin bundin til langs tíma hér á landi. Viðskiptin eru liður í losun hafta á fjármagnshreyfingar með gjaldeyri, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011. Markmið Seðlabanka Íslands með viðskiptunum er að auðvelda losun gjaldeyrishafta, án þess að það valdi verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í tvísýnu.

Fjárfestingarleiðin felur í sér að fjárfestar sem hyggjast fjárfesta á Íslandi fyrir erlendan gjaldeyri geta keypt íslenskar krónur fyrir hluta gjaldeyrisins í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands. Skilyrt er að viðkomandi fjárfestir kaupi að minnsta kosti sömu fjárhæð króna í venjulegum viðskiptum við fjármálastofnanir. Einnig er það skilyrði að öllum fjármunum verði varið til fjárfestingar innan lands, samkvæmt nánari ákvæðum í auglýsingum um fjárfestingarleiðina.

Einnig verður fjárfestum sem þegar eiga svonefndar aflandskrónur sem verið hafa í samfelldu eignarhaldi viðkomandi fjárfestis frá 28. nóvember 2008 gert kleift að fjárfesta með sama hætti og auglýsingin greinir. Þeir munu með sama hætti selja erlendan gjaldeyri hjá innlendri fjármálastofnun og er þá gert kleift að flytja til landsins aflandskrónur sínar. Fjárhæð aflandskróna sem heimilað yrði að flytja inn með þeim hætti samsvarar jafnvirði þess erlenda gjaldeyri sem fjárfestir seldi innlendri fjármálastofnun, reiknuðu á genginu sem myndast í útboðum Seðlabankans.

Í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra, Framgangur áætlunar um losun fjármagnshafta, frá 18. mars 2015 kemur fram að 1.099,2 millj. evra eða 206 milljarðar kr. hafi verið færðar til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina. Þar kemur einnig fram að 47,2% fjármagnsins hafi verið notuð til að fjárfesta í skuldabréfum, 40,0% í hlutabréfum, 12,2% í fasteignum og 0,6% í verðbréfasjóðum. Það er alveg ljóst að innstreymi þessa fjármagns hefur haft veruleg áhrif á íslenskt hagkerfi, ekki hvað síst íslenskan fasteignamarkað.“

Um aflandseignir Íslendinga og fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands segir:

„Undanfarin ár hefur gagnrýni á fjárfestingarleiðina verið hávær, en mismiklum rökum studd.“ — Sumir hafa talað um peningaþvættisleið Seðlabanka Íslands. — „Segja má að þessi gagnrýni hafi fengið byr undir báða vængi þegar skýrsla fjármála- og efnahagsráðuneytis, Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, var birt í byrjun janúar. Í skýrslunni segir m.a.: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattayfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða.“ (Viðauki 4: Vangaveltur um mögulegar úrbætur, bls. 47.) Segja má að sú rannsókn sem hér er stefnt að sé að einhverju leyti svar við ofangreindri skýrslu og að hún muni, síðast en ekki síst, varpa ljósi á hulinn hluta íslensks fjármálalífs undanfarinna ára og áratuga.“

Virðulegur forseti. Ég lýk málflutningi mínum hér í síðari ræðu minni.