146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2022. Þar er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður í efsta þrep. Þessi áform geta haft miklar og neikvæðar afleiðingar, sérstaklega fyrir litla og meðalstóra ferðaþjónustuaðila utan höfuðborgarsvæðisins. Staða ferðaþjónustunnar í hinum dreifðu byggðum landsins er ekki alls staðar hin sama og á suðvesturhorninu. Það er staðreynd að ferðaþjónustan glímir nú við margfalda verðhækkun miðað við samkeppnislönd. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið sem gerir það að verkum að öll verð hækka skyndilega gagnvart söluaðilum erlendis. Það er vel þekkt að jafnvel litlar verðbreytingar í ferðaþjónustu geta haft mikil áhrif á ákvörðun ferðamanna um áfangastað. Við þetta bætast fleiri þættir sem hafa áhrif á verð og rekstrarskilyrði, t.d. hækkun á gistináttaskatti og hækkun launa á undanförnum tveimur árum.

Áform ríkisstjórnarinnar eru vanhugsuð og geta því miður haft mikil neikvæð áhrif, sérstaklega gagnvart minni og meðalstórum ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni. Sú jákvæða uppbygging sem hefur orðið víðast hvar hefur í för með sér aukin atvinnutækifæri og sterkari byggðir. Það felst ákveðin byggðastefna í að standa vörð um ferðaþjónustufyrirtækin á landsbyggðinni. Það er dapurt til þess að hugsa að stjórnvöld skuli ekki taka tillit til þeirra jákvæðu áhrifa sem þessi uppbygging hefur í för með sér og huga frekar að því að styrkja markvisst sjálfbærni ferðaþjónustunnar og þar með byggðanna sjálfra.

Virðulegur forseti. Auðvitað þarf að fá fjármagn af þessari stóru atvinnugrein, en við Framsóknarmenn teljum aðrar leiðir betri. Við viljum setja á komugjöld til landsins og nýta þau til stýringar á ferðamannastraumnum. Til dæmis væri hægt að hafa komugjaldið hærra yfir sumarið og lægra yfir háveturinn. Einnig væri hægt að hafa lægra komugjald á flugvelli eins og t.d. á Akureyri eða á Egilsstöðum. Einnig viljum við Framsóknarmenn að gistináttagjald sé hlutfallslegt (Forseti hringir.) því að okkur finnst ekki sanngjarnt að sá sem gistir á tjaldstæði (Forseti hringir.) borgi sama gistináttagjald og á lúxushóteli í Reykjavík.