146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það fer vel á því að við komum hér hvert á fætur öðru, nefndarmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd, og ræðum um samgöngumál á landsvísu. Ég ætla að beina sjónum mínum út á land og fagna því sérstaklega að sá áfangi náðist á föstudaginn síðasta að slegið var í gegn, eins og sagt er, í Vaðlaheiðargöngum. Þetta er sérlega ánægjulegt, ekki síst vegna þess að margir höfðu efasemdir um þessa framkvæmd. Þegar erfiðleikar steðjuðu að með öllu því vatni sem úr göngunum kom, bæði heitu og köldu, var þetta jafnvel haft í flimtingum. Raunin er hins vegar sú að framkvæmdin mun skipta gríðarlega miklu máli fyrir allt Norðurland og auðvitað landið í heild þegar upp er staðið. Það verður mun öruggara að ferðast um Norðausturlandið. Þetta mun tengja saman byggðir, stækka atvinnusvæði og svona get ég haldið áfram. Ég vil óska okkur til hamingju með að þessum áfanga er náð og óska líka þeim sem að þeirri vinnu standa gæfu í áframhaldinu þangað til við munum geta farið að keyra þarna í gegn og greiða fyrir það eins og við erum öll tilbúin til.

Í lokin vil ég beina sjónum mínum austur á land þar sem jarðgangagerð hefur svo sannarlega breytt aðstæðum í fjörðum. Nú er kominn tími til þess að fara að huga í fullri alvöru að göngum undir Fjarðarheiði þar sem Seyðfirðingar búa. Það mun, þegar sú ákvörðun verður komin til framkvæmda, hafa þau áhrif að mannlíf þar mun allt blómstra aftur, eins og við sáum gerast t.d. á Siglufirði þegar (Forseti hringir.) Héðinsfjarðargöngin voru tekin í notkun.