146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa mikilvægu, sérstöku umræðu. Þetta er ekki ný saga, eins og hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni. Íslendingar hafa um áratugaskeið skorið sig úr í samanburði við nágrannalöndin í notkun lyfja, sérstaklega í ákveðnum lyfjaflokkum. Það hafa margvíslegar aðgerðir verið gerðar í gegnum tíðina, ekki síst hin síðari ár, til að reyna að ná betur utan um þá stöðu.

Það eru mjög góðir og mikilvægir punktar sem hv. þingmaður kom með í ræðu sinni sem mig langar að reyna að svara. Ég vil taka undir marga þeirra en líka útskýra hvar við erum stödd.

Ég tek undir með umræðu bæði landlæknis og starfsmanna hans um að það geti verið erfitt að átta sig á því í tiltölulega litlu kerfi eins og því íslenska hver sé ástæða eða bakgrunnur lyfjanotkunar eða munarins, eins og við þekkjum í þunglyndislyfjum þar sem Íslendingar nota yfir 100% meiri lyf en Norðurlandaþjóðirnar. Það er engu að síður mjög mikilvægt að gera okkar besta til að reyna að komast að niðurstöðu.

Það er rétt að notkun á tauga- og geðlyfjum á Íslandi er mikil í samanburði við aðrar þjóðir. Margar ástæður geta verið fyrir því að Ísland er jafn hátt og raun ber vitni. Það geta verið ólíkar aðstæður fyrir hvern lyfjaflokk, t.d. þunglyndislyf, örvandi lyf, svefn- og róandi lyf, róandi og kvíðastillandi lyf, flogaveikilyf og verkjalyf. Af öðrum lyfjaflokkum þar sem Íslendingar skera sig úr með hærri notkun eru testósterónyf, ákveðin geðrofslyf, skjaldkirtilshormónalyf og hóstamixtúra með kódeini, ópíoðíðverkjalyf. Það er því á mörgum sviðum lyfjanotkunar sem Íslendingar skera sig úr.

Að mati landlæknis eru engar vísbendingar um að Íslendingar séu frábrugðnir öðrum þjóðum um sjúkdómabyrði sem gæti skýrt þennan mun. Þó svo að við höfum stundum heyrt kenningar um norðlæga stöðu landsins og mikið skammdegi á veturna eru í sjálfu sér engar rannsóknir sem benda til þess að það hafi raunveruleg merkjanleg áhrif í notkun á þunglyndislyfjum.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra telji að ástæða mikillar neyslu á fjölda lyfjaflokka sé hnignandi heilbrigðisþjónusta á Íslandi eða aðrar aðstæður. Því er auðvitað dálítið erfitt að svara játandi eða neitandi. Við höfum hreinlega ekki nógu miklar rannsóknir til þess. En við vitum að margt má betur fara í skipulagi og framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum ekki mælingar sem staðfesta slíka fullyrðingu. Hins vegar má alveg velta fyrir sér, sérstaklega þegar við hugsum um geðlyf og þunglyndislyf, hvort það, sem er ljóst, að við höfum verið eftirbátar nágrannalandanna, og eftir því sem við viljum vera í geðheilbrigðisþjónustu, ýti frekar undir ávísun á lyfjum en hitt, manni þykir það alla vega ekki ólíklegt. En eins og ég segi höfum við engar staðfestingar á því.

Varðandi það hvort ég telji að skipulag heilbrigðiskerfisins ýti undir mikla lyfjaneyslu vil ég segja að maður verður að gera ráð fyrir því að læknar ávísi lyfjum samkvæmt sinni bestu læknisfræðilegu þekkingu. Það er rétt að geta þess að landlæknir, sem hefur það hlutverk að fylgjast með lyfjaávísunum og stuðla að skynsamlegri notkun lyfja í landinu, hefur haldið því fram að mikilvæg ástæða fyrir ofnotkun lyfja á Íslandi sé brotakennt heilbrigðiskerfi þar sem heilbrigðisstarfsmenn vinni ekki saman eða sinni sjúklingum á sama hátt og heilbrigðisstarfsmenn annarra þjóða. Landlæknir hefur einnig nefnt að aðrir samfélagslegir þættir eins og skólakerfið, þjónusta við aldraða og þá sem glíma við örorku séu ekki með sama fyrirkomulagi hér og hjá nágrannaþjóðum og það geti átt þátt í óhóflegri notkun lyfja.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum. Mér þykir það leitt. Rétt áður en ég sleppi orðinu og leyfi umræðunni að halda áfram, ég kem aftur í lokin, vil ég taka fram um nýjan lyfjagagnagrunn sem embætti landlæknis heldur utan um (Forseti hringir.) að eitt af stærstu hlutverkum hans er einmitt að auðvelda betra utanumhald og upplýsingagjöf um notkun á lyfjum sem hægt væri að nota í leiðbeiningarskyni til að reyna að hafa áhrif á notkun lyfja. (Forseti hringir.) Mér þykir fyrir því að ég er kominn fram yfir tímann. Ég verð að koma aftur að þessu í seinni ræðu minni.