146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[15:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þeirri mikilvægu umræðu sem hér er í dag. Það er mikilvægt að við komumst eitthvað áfram með þetta mikilvæga verkefni.

Ég held að þótt við vitum ekki nákvæmlega skýringuna, þær eru væntanlega margar, sé þetta nokkuð stórt kerfisvandamál sem við þurfum að finna lausn á og fara aðrar leiðir. Við ræðum einnig að okkur vanti mikið fjármagn í aukin lyfjakaup varðandi aðra sjúkdóma, svo sem krabbamein. Hér er ekki lausnin að auka bara fjármögnun. Við þurfum að athuga hvað klikkar í kerfinu svo við nýtum þá fjármuni á réttan hátt sem við setjum í lyf.

Þá kemur upp sú spurning hvort þessi mikla lyfjanotkun sé efnahagslegt mál, þar sem mun ódýrara er fyrir þann sem þarf á þessum lyfjum að halda að fara til geðlæknis, sem notar frekar lyf, en til sálfræðings eða félagasamtaka eins og Hugarafls og annarra mikilvægra aðila í þriðja geiranum. Hvernig getum við gert auðveldara fyrir fólk að leita þangað í úrræði án lyfja, hjálpað fólki að fá fjölbreyttari úrræði? Þannig fáum við aukið fjármagn í önnur lyf.

Við höfum oft heyrt um þessa miklu lyfjanotkun, sem oft er talað um sem misnotkun. Lyfseðilsskyld lyf ganga kaupum og sölum á hinum svokallaða svarta markaði, undirmarkaði, undirheimunum. Þá getum við spurt okkur: Hversu mikla neyslu niðurgreiðum við með skatti Íslendinga? Við niðurgreiðum fíkn með því að hafa kerfið svona. Þarna þurfum við að finna leið til að auka virði fyrir notandann og minnka sóun í kerfinu.