146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Á síðu Hugarafls er frétt frá því í janúar sl. sem ber yfirskriftina „Íslensk ungmenni eru lyfjuð og líður illa“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenskar stúlkur á aldrinum 15 til 24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnaldrar þeirra í Danmörku. Sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi. Enginn hópur tekur eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára.

Allt þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu heilbrigðistölfræðinefndarinnar sem ber saman heilbrigðismál Norðurlanda.“

Ég vil, frú forseti, ítreka spurningu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað er til ráða?

Það er nauðsynlegt að greina hver tengslin eru á milli neyslu geðlyfja og þess að tímar hjá sálfræðingum eru mjög dýrir og hið sama má segja um tíma hjá geðlæknum. Ein klukkustund hjá geðlækni kostar nú 15.404 kr. í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Eina niðurgreidda úrræðið fyrir ungmenni með geðrænan vanda er lyfjameðferð. Hitt er allt of dýrt og kanna þarf hvort skortur á úrræðum á geðheilbrigðissviði og kostnaður sem einstaklingar þurfa að bera í heilbrigðiskerfinu valdi því ekki að lyfjanotkun er svo mikil hér á landi sem raun ber vitni. Skortur á fjármagni og aðstöðu í geðheilbrigðiskerfinu hlýtur að spila þarna stórt hlutverk, eða er skýringin bara sú að á Íslandi ríki svokallaður lyfjakúltúr og hafi gert í áratugi eins og menn hafa nefnt í umræðunni um þessi mál, bæði í þingsal og utan hans? Ef svo er, hver er það þá sem viðheldur þeim kúltúr?