146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er þörf umræða. Það má segja að á henni séu tvær hliðar sem hér eru ræddar. Annars vegar er það sú staðreynd að Íslendingar nota mjög mikið af lyfjum, sérstaklega vissum flokkum lyfja, og það er að sjálfsögðu umhugsunarefni og þarft viðfangsefni að fara yfir það í samhengi við stefnu í heilbrigðismálum almennt hvernig hægt er að stemma stigu við því og leggja frekar áherslu á önnur úrræði þar sem þau koma að gagni, svo sem á sviði þunglyndis og geðrænna vandamála og almennt heilsueflandi aðgerðir í kerfinu. Ég verð þó að segja að meiri áhyggjum veldur mér sú staðreynd að í öðrum tilvikum eru alls ekki í boði á Íslandi og ekki búið að innleiða lyf sem sannarlega geta skipt sköpum í baráttu við illvíga sjúkdóma og/eða stórbætt líðan manna á meðan þeirra nýtur við.

Staðan virðist vera sú, því miður, og þetta hefur maður verið að reyna að kafa aðeins ofan í líka í samhengi við fjármálaáætlun sem er til umfjöllunar, að Ísland er að dragast aftur úr eða meira aftur úr á nýjan leik, að því er virðist, þeim löndum sem við höfum reynt að bera okkur saman við og hengja okkur aftan í. Þar hafa gjarnan Norðurlandaþjóðirnar eða Bretland verið höfð til viðmiðunar, jafnvel hreinlega þannig að við reyndum að setja okkur takmark um að vera aldrei nema visst mörgum mánuðum á eftir að samþykkja inn ný lyf sem komin væru í gagnið annars staðar á Norðurlöndunum eða í Bretlandi. Nú er óvissa uppi í þeim efnum, jafnvel bara á yfirstandandi ári. Hún varpast að einhverju leyti inn í framtíðina í nýrri fjármálaáætlun.

Þetta er eitt það allra tilfinnanlegasta sem maður stendur frammi fyrir þegar sannarlega eru komin ný, en að vísu oft mjög dýr, lyf til sögunnar sem geta skipt sköpum, jafnvel fyrir fáeina einstaklinga sem verða fyrir því óláni að fá sjaldgæfa sjúkdóma. Um leið verður auðvitað að viðurkennast að kostnaðurinn getur verið mjög hár eins og lyfjabransinn er samansettur (Forseti hringir.) og þangað til verð lyfja fer að lækka eftir að þau hafa verið í notkun um skeið.

Ég held að ekki verði undan því vikist að fara vel yfir þessa þætti í tengslum við afgreiðslu fjármálaáætlunar.