146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:17]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar í seinni ræðu minni að nýta tækifærið og bera upp aðra spurningu og beina til hæstv. ráðherra, en hún snýr kannski frekar að rannsókn á milli fylgni lyfjanotkunar og búsetu. Nú erum við ekki eina þjóðin sem býr við langvarandi myrkur og slæm veðurskilyrði, sem við tölum einmitt oft um að hafi áhrif á líðan okkar og jafnvel geðheilsu. Skammdegisþunglyndi er hugtak sem við þekkjum flest og við könnumst eflaust mörg við fólk sem telur þann leiða kvilla há sér svo að vikum og mánuðum skiptir, þ.e. ef við höfum ekki jafnvel fundið fyrir honum sjálf. Mig langar því að spyrja ráðherra hvort honum sé kunnugt um hvort rannsóknir hafi verið gerðar á fylgni milli búsetu á norðlægum slóðum, þar sem langir og strangir vetrarmánuðir geta haft áhrif á geðheilsu fólks og sálarheill, og síðan aukinni þunglyndis- eða kvíðalyfjanotkun.