146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég ætla að tala hratt og reyna að svara. Ég mun ekki ná að svara öllum spurningum sem til mín hefur verið beint en mun reyna það. Við lokaspurningu hv. málshefjanda, um það hvort ég vilji beita mér fyrir því að þessi mál verði skoðuð, er stutta svarið já. Ég tel að það verði að skoða en embætti landlæknis hefur lykilhlutverki að gegna í því þó ekki síst lyfjagagnagrunnurinn sem læknar fengu fullan aðgang að 2016 og sjúkraskrárkerfi sem hafa verið samtengd til að auka möguleika á meiri samvinnu milli lækna á ólíkum starfsstöðum en líka til að fylgjast með notkun sjúklinga á lyfjum og koma í veg fyrir að menn séu með röng lyf eða neyti of margra lyfja. Þetta tengist spurningum og vangaveltum sem margir þingmenn hafa komið með í sambandi við geðheilbrigðisáætlun og aðgengi að sálfræðingum. Þá er svarið við ítrekaðri spurningu þar að við förum eftir geðheilbrigðisáætlun og okkur er að takast að vinna eftir henni hraðar en til stóð í áætluninni, til að mynda með hraðari fjölgun sálfræðinga á heilsugæslunni sem er lykilatriði í þessu samhengi. Ég vil líka minna á samvinnu menntamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga í sambandi við úttekt Evrópustofnunar á skóla án aðgreiningar sem eflaust mun líka hafa áhrif á útskrift lyfja í sambandi við ADHD og slíkt.

Á síðustu 15 sekúndunum vil ég taka það fram að ég hef, í samvinnu við fjármálaráðherra, verið að leggja mat á og undirbúa fjármögnun á innleiðingu nýrra dýrra lyfja sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2017. Ég geri ráð fyrir því (Forseti hringir.) að lyfjagreiðslunefnd taki ákvörðun um lyfjainnleiðingar á næsta fundi sínum. Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætlun að töluvert verði aukið til lyfjaflokksins, m.a. til að tryggja slíka innleiðingu í framhaldinu.

Svo fer ég fram yfir tímann og hvet sömuleiðis fólk til þess að mæta í göngu Pieta gegn sjálfsvígum.