146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að kalla eftir þessari umræðu og fyrir góðar spurningar. Margar þeirra höfum við rætt áður á þinginu og það er ánægjulegt að gera það áfram. Það er rétt sem málshefjandi talar um, nýtt greiðsluþátttökukerfi var tekið í notkun í gær. Strangt til tekið var það fyrsti dagurinn. Það er byggt á lögum um sjúkratryggingar sem voru samþykkt á Alþingi í fyrra eftir undirbúning sem hafði staðið frá hausti 2013 með nefndarvinnu sem skilaði þverpólitískri niðurstöðu.

Hér er um að ræða mikið framfaraskref og réttarbót, t.d. gagnvart einstaklingum sem hafa borið þungar byrðar vegna meðferðar, svo sem einstaklingum í meðferð við krabbameini. Sömuleiðis felst í kerfinu ákveðin vernd fyrir barnafjölskyldur, öryrkja og aldraða. Markmiðið er að verja sjúkratryggða fyrir mjög háum greiðslum. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu mun nú dreifast á sjúkratryggða með öðrum hætti en áður þannig að þeir sem sjaldan þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda greiða meira fyrir þjónustu og þeir sem þurfa á mikilli þjónustu að halda greiða minna.

Í fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir 1 milljarði kr. til viðbótar til að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í heilbrigðisþjónustunni. Það er tekið mið af því í reglugerð sem var gefin út nýlega um nánari framkvæmd á kerfinu. Það var sameiginleg niðurstaða velferðarnefndar að skipuleggja það þannig að auknum fjármunum yrði sérstaklega varið í að lækka kostnað hjá barnafjölskyldum, öryrkjum og öldruðum.

Í nýja greiðsluþátttökukerfinu er sett þak á greiðslur sjúkratryggðra. Sjúkratryggður einstaklingur sem þarf á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda greiðir að hámarki 49.200 kr. á ári. Aldraðir, öryrkjar og börn sem þurfa á mikilli eða reglulegri þjónustu að halda greiða að hámarki 32.800 kr. Þeir sem þurfa á mikilli þjónustu að halda eru þannig varðir fyrir mjög háum greiðslum. Hámarksgreiðsla almennra sjúkratryggðra sem ekki þurfa á mikilli þjónustu að halda verður 24.600 á mánuði og að algjöru hámarki 69.700 kr. á ári. Það er þá bara ef einstaklingur hefur ekki neina sögu til afsláttar. Þetta eru sömu tölur eða viðmiðanir og voru í umræðunni fyrir fjárlagagerð á síðasta ári. Það er ekki verið að hækka tölur frá því sem var umræða um á síðasta ári.

Hámarksgreiðsla aldraðra, öryrkja og barna sem ekki þurfa á mikilli þjónustu að halda verður 16.400 á mánuði og að hámarki 46.467 kr. á ári. Eins og ég segi á það að heyra til algjörra undantekninga að talan fari yfir 32.800.

Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu umfram þessar fjárhæðir greiðist af sjúkratryggingum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt sé að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu. Þessi stefna endurspeglast í fjármálaáætlun 2018–2022 sem liggur nú fyrir Alþingi. Ég hef sagt áður að mér finnst mikilvægt að við fáum reynsluna núna af kerfinu sem er að komast í gagnið í gær og í dag vegna þess að það er einhver stærsta kerfisbreyting í kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu á Íslandi mjög lengi. Það er mjög mikilvægt að við skoðum reynsluna af þessu kerfi, sjáum hvort það breyti að einhverju leyti hegðun sjúklinga um hvernig leitað er heilbrigðisþjónustu, hvort þátttaka sjúkraþjálfunar í kerfinu hafi áhrif til breytingar og metum þetta áður en við tökum ákvarðanir um forgangsröðun um hvernig við notum aukna fjármuni til að lækka greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu almennt, hvort við gerum það til að koma sérstaklega til viðbótar til móts við einhverja hópa. Velferðarnefnd og Alþingi voru sátt við að einbeita sér sérstaklega að barnafjölskyldum, öryrkjum og öldruðum í þessu samhengi en spurning er hvort það verði notað til að færa fleiri flokka eins og tannlækningar, sálfræðiþjónustu, ferðakostnað o.s.frv. frekar inn í kostnaðarþátttökukerfið eða hvort eigi að taka skref, sem ég styð, til að samræma greiðsluþátttökukerfi almennt í heilbrigðisþjónustunni og lyfjakostnað.

Ég tel rétt að við skoðum þessa stóru (Forseti hringir.) kerfisbreytingu áður en við tökum stefnumarkandi ákvarðanir um forgangsröðun í framhaldinu en forgangsröðunin verður að vera til þess að lækka greiðsluþátttökuna almennt, sérstaklega hjá þeim sem eru veikir fyrir.