146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna nýju greiðsluþátttökukerfi sem litlu skrefi í átt að réttlæti, en í ríku landi eins og Íslandi ætti umræðan auðvitað ekki að snúast um hvort við viljum auka jöfnun landsmanna og tryggja öllum sjálfstætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu heldur hvernig við hyggjumst gera það. Það vantar svo sem ekkert upp á það. Á hátíðlegum stundum segjast menn vera sammála um það. Það örlar jafnvel stundum á þeirri hugsun hjá löggjafanum því að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, er óheimilt að mismuna sjúklingum á grundvelli efnahags. Þó hefur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu aukist umtalsvert á undanförnum árum og orðið mörgum allþungur baggi. Íslendingar fresta því nefnilega í auknum mæli að leita læknis vegna kostnaðar. Staðan er sérstaklega slæm meðal tekjulágra.

Ég vona að stjórnmálamenn hafi meðtekið ákall þjóðarinnar um uppbyggingu almannaþjónustu og vísbendingu um gjána á milli okkar sem höfum það gott og þeirra sem þurfa að velta hverjum túkalli milli fingranna þegar þeir ákveða hvort þeir eigi að greiða reikninga eða sækja sér heilbrigðisþjónustu. Og að stjórnmálaflokkarnir hafi meint eitthvað með því þegar þeir lofuðu stórkostlegri innspýtingu í heilbrigðiskerfið fyrir kosningar og markmiðið verði að heilbrigðisþjónustan sé fyrir alla.

Í þeirri trú lagði Samfylkingin í febrúar fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að kveða á um í reglugerð að hámarksgreiðsla sjúkratryggðrar læknisþjónustu utan heilsugæslu skuli vera 35 þús. kr. á ári og svo að draga úr hlutdeild aldraðra og öryrkja í kostnaði við tannlækningar. Markmiðið í framhaldinu er að fella lyf, sálfræðikostnað, ferðakostnað, undir sama greiðsluþátttökukerfi og að heilbrigðisþjónusta verði í framtíðinni gjaldfrjáls. Á það eigum við hiklaust að stefna. En til þess þarf ríkisstjórnin að vakna og lýsa sig reiðubúna til að afla tekna hjá þeim sem eru mjög aflögufærir. Ég vona að heilbrigðisráðherra styðji þingsályktunartillögu okkar.