146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Að mati okkar í Vinstri grænum á að reka heilbrigðiskerfið í gegnum sameiginlega sjóði því að það tryggir öllum aðgang að kerfinu óháð efnahag. Ég tek undir að sú stefna sem mörkuð hefur verið með að setja hámark á greiðsluþátttöku sjúklinga er rétt og hún er mikilvæg en segir líka sína sögu um það hvert heilbrigðiskerfið var komið þar sem einstaklingar gátu lent í að greiða óhemjuháar fjárhæðir fyrir nauðsynlega þjónustu.

Ég tel að strax verði að huga að undirbúningi þess að þróa kerfið áfram. Það tengist umræðunni um lyf sem við áttum hérna fyrr í dag og því hvort fólki sé ávísað lyfjum eða annars konar heilbrigðisþjónustu. Það tengist líka því að við erum heild, við erum ekki bara sjúkdómur á einhverju litlu tilteknu svæði og þess vegna er svo mikilvægt að hafa allan líkamann undir þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

Þessi umræða tengist ekki síður umræðunni um einkavætt heilbrigðiskerfi. Mig langar í því samhengi sérstaklega að tengja það við ummæli hæstv. forsætisráðherra í gær um að hann sjái ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu greiði sér arð. Það hefur auðvitað áhrif á það hvað ríkið leggur inn, hvað einstaklingurinn þarf að borga sjálfur og svo hvort einhverjir þriðju aðilar eiga að græða á öllu saman. Ég myndi gjarnan vilja heyra komment frá hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta því að þetta er nákvæmlega það sem skiptir máli þegar við erum að ræða um það hvernig heilbrigðiskerfið okkar á að vera til framtíðar (Forseti hringir.) sem og það að allir eigi að geta haft aðgang að góðu heilbrigðiskerfi óháð efnahag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)