146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla einmitt að taka upp þráðinn sem hér var skilinn eftir frá þeim þingmanni sem var á undan mér í ræðustól. Ég þakka fyrir þessa umræðu en mér finnst mjög mikilvægt að það komi skýrt fram hvort upplýsingar um það hvort ríkið greiði með þessu greiðsluþátttökukerfi fyrir þá sem þurfa eða ætla að nota þjónustu í einkageiranum, eins og t.d. Klíníkinni, og hvort síðan, eftir að þeim framlögum hefur verið ráðstafað inn í einkareksturinn, sé þá löglegt að greiða arð úr þessum fyrirtækjum eins og hefur komið fram að hæstv. forsætisráðherra finnist eðlilegt.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga í mjög ósanngjörnu kerfi þar sem það var happa og glappa hvað maður þurfti að borga mikið ef maður veiktist illa. Sumir krabbameinssjúklingar misstu jafnvel heimili sín. Í staðinn fyrir að við finnum leiðir til að greiða þetta saman í gegnum skattkerfið er ákveðið að velta kostnaðinum yfir á aðra sjúklinga og gríðarlega margir fá nú hærri reikninga út af breytingum á þessu kerfi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi mjög skýrt fyrir og verði einfalt að vita nákvæmlega hvað er inni í þessum pakka. Ég veit að kostnaður fyrir fólk sem hefur áður verið með fasta lækna hefur aukist mikið og það fólk hefur færst til í kerfunum. Það er eins og við séum alltaf að breyta kerfum sem þýðir að það lagast fyrir suma en það verður ansi vont fyrir marga, t.d. öryrkja og eldri borgara. Mér finnst það mjög miður og spyr hæstv. ráðherra hvort það standi til að gera úttekt og lagfæra ef það kemur í ljós að hallað sé á þá (Forseti hringir.) sem minnst mega sín.