146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef við leggjum mat á umræðuna hér í heild held ég að flestir fagni þeirri kerfisbreytingu sem hér hefur átt sér stað varðandi greiðsluþátttöku sjúklinga, þeirri meginhugsun sem þarna birtist, að það sé rétt að létta byrðar þeirra sem hafa haft mestan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, að færa þann kostnað niður og setja hámark á þá kostnaðarhlutdeild. Ég held að það sé mjög jákvætt skref. Ég held að allir þekki eða hafi heyrt um dæmi sem hafa verið virkilega ósanngjörn, óréttlát og sorgleg, um fólk sem hefur farið verulega illa út úr kostnaðarþátttöku sinni vegna alvarlegra sjúkdóma og mikils kostnaðar í heilbrigðiskerfinu. Meginhugsunin í þeirri kerfisbreytingu sem hér er staðið að er auðvitað að hindra að slík tilvik komi upp.

Kerfið sem slíkt er að ýmsu leyti snúið og alveg örugglega á eftir að reyna á ýmsa þætti þess. Það mun örugglega þurfa að endurskoða útfærsluna með einum eða öðrum hætti, bæði hvað varðar reglurnar sem nákvæmlega gilda um þetta og hina tæknilegu hlið mála sem menn eru auðvitað að prófa sig áfram með þannig að við verðum að búa okkur undir það bæði í þinginu og eins á vettvangi stjórnsýslunnar að lagfæra ýmsa annmarka sem munu koma upp í framkvæmd. Að sama skapi hljótum við líka að skoða með hvaða hætti er hægt að koma enn frekar til móts við sjúklinga (Forseti hringir.) með hugsanlegum breytingum á þeim hámarksupphæðum sem hér er um að ræða.