146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í dag birti ASÍ á heimasíðu sinni dæmi um kostnaðaraukningu þeirra sem ekki hafa náð kostnaðarþakinu í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Kostnaðaraukningin er í mörgum tilfellum gríðarleg. Ástæða er til að hafa áhyggjur vegna aukins kostnaðar fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir nýtt kerfi. Mikil hækkun er líkleg til að fjölga þeim sem neita sér um heilbrigðisþjónustu enn frekar og það kemur verst niður á konum og fólki í lægstu tekjuhópunum. ASÍ bendir á að kostnaður vegna geðheilbrigðisþjónustu valdi sérstökum áhyggjum. Alþingi er hvatt til að bregðast við þessari alvarlegu stöðu og tryggja aukna fjármuni inn í nýja kerfið og þar með jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eins og lög um sjúkratryggingar kveða á um.

Nýja greiðsluþátttökukerfinu er ætlað að tryggja sjúklinga gegn of háum kostnaði vegna læknisþjónustu, rannsókna og þjálfunar með greiðsluþátttökuþaki. Það gera um 70.000 kr. fyrir almenna sjúklinga og 45.500 fyrir lífeyrisþega og börn. Fyrir þá sjúklinga sem þurfa mikla þjónustu reglulega mun kostnaðurinn í flestum tilfellum lækka, og það er gott, en fyrir flesta aðra mun kostnaðurinn hækka. Til viðbótar við þennan kostnað kemur síðan kostnaður vegna lyfja, tannlæknaþjónustu, sálfræðiþjónustu og hjálpartækja. Hækkunin er sláandi og hún er meiri hjá lífeyrisþegum en almennum sjúklingum. Mun fleiri fresta læknisheimsókn á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum vegna kostnaðar. Þeir tekjulægri hafa síður ráð á heilbrigðisþjónustu en þeir tekjuhærri og fleiri konur neita sér um þjónustuna en karlar vegna kostnaðar.

Þetta er ekki gott kerfi. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta er það sem velferðarsamfélagið Ísland á að stefna að.