146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:56]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Í seinni ræðu minni langar mig að nýta tækifærið og segja að ég fagna því sérstaklega að börn, öryrkjar og aldraðir muni greiða minna en almennir notendur nú þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi hefur verið tekið í gagnið. Ég tel að það sé fullur skilningur á því og að stuðningur sé við það úti í samfélaginu að við forgangsröðum einmitt í þágu þessara hópa.

Fyrst komið hefur verið inn á þetta í ræðum annarra þingmanna verð ég hins vegar að segja að ég lít ekki svo á að það sé eitthvert sérstakt metnaðarmál almennt að öll þjónusta verði gjaldfrjáls fyrir alla. Ég er þeirrar skoðunar að við sem höfum efni á að taka þátt í að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu eigum að gera það upp að einhverju marki. Það er nefnilega ekki þannig í raun að það sé eitthvað til sem heitir gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta Það eru að mínu mati hillingar. Afi kenndi mér það alla vega. Þótt við afi höfum ekki alltaf verið sammála um allt í lífinu er ég sammála honum í því að ekkert kostar ekki neitt. Ef við viljum að fólk sem hefur nóg milli handanna greiði t.d. ekki fyrir einstakar heimsóknir á heilsugæsluna, sem ég er ekki sammála, horfum við fram á töluverðar skattahækkanir. Segjum það bara eins og það er. Ég er ekki viss um að það sé endilega það sem meiri hluti Íslendinga vill.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort hann telji, fyrst hér var komið inn á tannlækningar, að tannlækningar eigi að vera hluti af sameiginlega greiðsluþakinu eða að fjármagni væri mögulega betur varið ef því væri beint inn í forvarnastarf og fræðslu um mikilvægi og gildi góðrar tannhirðu.