146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:58]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur verið hér. Það er fróðlegt að geta rætt þetta mál hér í upphafi að nýju greiðsluþátttökukerfi. Ég tek undir það sem fram hefur komið í umræðunni, það er mikilvægt að skref séu stigin í átt að því að verja sjúklinga fyrir allt of háum kostnaði vegna veikinda. Það er rétt, sem fram hefur komið í umræðunni, að nýtt kerfi er mikil kerfisbreyting. Eflaust eiga einhverjir hnökrar eftir að koma upp sem nauðsynlegt verður að bregðast við. En ég er þess fullviss að við komumst í gegnum það. Það þarf tíma. Mikilvægt var að fara af stað með kerfið þó að kannski væri ekki allt alveg tilbúið.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra aftur þeirra spurninga sem ég spurði í ræðu minni áðan. Mig langar að spyrja hann hvort hann muni vinna að því að langveikir einstaklingar fái gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, hvort fella eigi ferðakostnað sjúklinga, sálfræðiþjónustu, tannlækningar og hjálpartæki, undir nýtt greiðsluþátttökukerfi og hvort hann ætli sér að sameina greiðsluþátttökukerfin tvö, þ.e. vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu, í eitt kerfi. Ég veit að það er mjög mikilvægt að sjá hvernig kerfið virkar og hvernig það fer af stað en við hljótum að vera með forgangsröðun, hvaða hlutum við ætlum að bregðast við, hvað við ætlum að leggja áherslu á og í hvað fjármunir eigi að fara sem eru settir í ríkisfjármálaáætlun. Í hvaða málaflokka og í hvaða verkefni, sem kallað er eftir, á að forgangsraða í þessum mikilvæga málaflokki?

Annars vil ég þakka fyrir mjög góða umræðu.