146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svörin. Mig langar í framhaldinu að spyrja ráðherrann um landupplýsingagögn almennt í stofnunum umhverfisráðuneytisins. Það liggur beint við að ræða það þegar við tölum um þá stofnun sem fer sérstaklega með landmælingar og landupplýsingagögn hvernig því er fyrir komið og um það búið í lögum. Svo er það svo að nánast allar stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið fara með einhvers konar landupplýsingar. Veðurstofa Íslands er stofnun sem hæstv. ráðherra nefndi. Til viðbótar má nefna hvort sem er Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógræktina, Landgræðsluna eða aðra aðila sem vinna allir, hver með sínu nefi meira og minna, einhvers konar landupplýsingagögn. Ég held að margir sem vinna hjá þeim stofnunum hafi þá framtíðarsýn að þetta sé samkeyranlegt með einhverju móti og hægt sé að nálgast þessi gögn öll í einhvers konar kerfi sem getur lesist á eða kallast á eftir atvikum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort slík vinna sé í gangi og hvar hún sé þá stödd. Ég held að við séum sammála um það báðar að við viljum hafa gott kerfi sem almenningur getur haft gagn og not af, en ekki síst þannig að almannafé sé vel ráðstafað og við séum ekki að gera sömu hluti á mörgum stöðum.

Hæstv. ráðherra hefur væntingar til þess að málið klárist núna vegna þess að það er komið í gegnum ríkisstjórn og þrátt fyrir einhverjar efasemdir einhvers staðar þá er það komið til þingsins í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna og þá vil ég fullvissa hæstv. ráðherra um það að þingflokkur Vinstri grænna stendur með góðum umhverfisráðherra í öllum góðum verkum og mun gera það í þessu máli eins og öðrum. Við höfum verið samstiga í umhverfismálum og verðum það hér eftir.